Sjálfstæðisfélag um fullveldismál tímabært?

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins.
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. mbl.is/RAX

Tímabært og nauðsynlegt kann að vera að stofna félag innan Sjálfstæðisflokksins um fullveldismál að mati Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins. Þetta kemur fram á vefsíðu hans. Tilefnið eru umræður um svonefndan þriðja orkupakka Evrópusambandsins.

Töluverð umræða hefur átt sér stað um þriðja orkupakka ESB sem ætlast er til að verði innleiddur hér á landi vegna aðildar Íslands að EES-samningnum. Skoðanakönnun sem gerð var fyrir Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum, og birt var síðasta vor sýndi 80,5% landsmanna andvíg því að framselja vald yfir íslenskum orkumálum til evrópskra stofnana á en 8,3% því hlynnt.

„Tilgangurinn með því væri að skapa sérstakan vettvang fyrir umræður um fullveldismál í ljósi sívaxandi krafna frá ESB um framsal fullveldis í krafti EES-samningsins. Um leið yrði slíkt félag ákveðið aðhald fyrir þingflokk og flokksforystu,“ segir Styrmir og bætir við að hugmyndir um slíkt félag hafi komið fram fyrir nokkrum árum í tengslum við umsókn Íslands um inngöngu í ESB sem hann segir ljóst að enn hafi ekki verið dregin til baka með formlegum hætti.

„Nú gæti verið tilefni til að gera þær hugmyndir að veruleika,“ segir Styrmir ennfremur. Hann segir ekki ljóst hvort forysta Sjálfstæðisflokksins hafi í hyggju að styðja samþykkt þriðja orkupakkans „en með því að samþykkja hann væri stigið stórt skref í átt til þess að ríkjabandalagið á meginlandi Evrópu næði yfirráðum yfir einni af helstu auðlindum Íslendinga, orku fallvatnanna.“

„En það er skynsamlegt fyrir núverandi forystu Sjálfstæðisflokksins að átta sig á að hreyfing sjálfstæðissinna innan Sjálfstæðisflokksins er sterk.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert