Ísland hefur orðið mikilvægari samstarfsaðili á sviði öryggis- og varnarmála vegna breyttrar stöðu í heimsmálunum og tengist það landfræðilegri legu landsins í Norður-Atlantshafi, segir Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, í samtali við blaðamann.
Hún segir að Norðmenn hafi sóst eftir því að vekja athygli NATO á Norður-Atlantshafssvæðinu í samstarfi við Íslendinga, Breta og Bandaríkjamenn. Það hefur tekist að vissu leyti að mati ráðherrans, en til stendur að halda einstaka NATO-æfingu í Noregi í október sem ber heitið Trident Juncture.
Á æfingunni taka tæplega 40 þúsund einstaklingar þátt frá 30 aðildarríkjum og samstarfsríkjum bandalagsins. Þá verða einnig notuð um 70 herskip og 130 flugvélar.
Søreide segir að þátttaka Íslands í slíkum verkefnum styrki stoðir trúverðugra varna í norðri.
Utanríkisráðherrann var staddur hér á landi í vinnuferð í gær og í dag og fundaði meðal annars með alþingismönnum, Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra, Guðna Th. Jóhannessyni forseta, auk þess sem hún hitti bændur í Borgarfirði.
Hún segist hafa rætt við Guðlaug og alþingismenn um stöðu EES-mála og að hún hafi greint þeim frá mikilvægi þess að þriðji orkupakki Evrópusambandsins verði að fullu hluti af EES-samningnum.
„Við erum mjög þakklát íslenskum bændum fyrir skjót viðbrögð við þeirri stöðu sem er í Noregi,“ segir Søreide og vísar til þess að um 100 íslenskir bændur hyggjast flytja út 30 þúsund heyrúllur, til þess að mæta alvarlegum fóðurskorti í landinu sökum mikilla þurrka.
Ítarlegra viðtal við Søreide birtist í Morgunblaðinu á morgun.