„Við erum öll sammála um mikilvægi innri markaðarins. Það að hafa aðgengi að 500 milljóna manna markaði með sameiginlegar reglur og staðla fyrir inn- og útflutning er gríðarlega mikilvægt til þess að skapa sanngjörn samkeppnisskilyrði. Þetta skiptir bæði efnahagskerfi Íslendinga og Norðmanna máli,“ segir Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, spurð um framtíðarhorfur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið í ljósi útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.
Søreide var á Íslandi vegna vinnuferðar og átti hún meðal annars fund með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra þar sem til umræðu voru samvinna Norðurlandaþjóða, málefni norðurslóða og Evrópska efnahagssvæðið.
„Við höfum öll hag af því að finna farsæla lausn í málinu [Brexit]. Það er hins vegar erfitt að vita með vissu hvað gerist næst. Bretar og Evrópusambandið verða að komast að samkomulagi fyrst þannig að hægt verði að meta hver næstu skref verða,“ segir Søreide. Hún telur Íslendinga og Norðmenn hafa sameiginlega hagsmuni af því að ekki skapist óvissa um innri markaðinn og að hann sundrist ekki.
„Við höfum einnig áhyggjur af því hversu hægt gengur að semja milli Bretlands og ESB þar sem það fyrirkomulag sem á endanum verður mun ráða forsendum viðskipta og samstarfs milli EFTA og Bretlands,“ staðhæfir ráðherrann.
Hún segir norska utanríkisráðuneytið vinna út frá ólíkum líkönum sem endurspegla mögulega þróun í tengslum við Brexit. Þessi líkön segir ráðherrann byggjast bæði á forsendum um að fáar breytingar verði á skipan mála milli Bretlands og Evrópusambandsins og að þær verði miklar.
„Við erum einnig að vinna út frá þeirri stöðu sem gæti komið upp ef enginn samningur yrði gerður milli Breta og ESB, þótt það kunni að vera ólíkleg niðurstaða. Kjarni málsins er að vera undir það búin að takast á við þær áskoranir sem verða,“ bætir Søreide við.
„Það er grundvallaratriði að vestrænar þjóðir standi saman í fordæmingu brota gegn þjóðarrétti af hálfu Rússa. Slíkt hefur í för með sér fórnarkostnað fyrir öll ríki, sem við verðum að vera reiðubúin til þess að taka á okkur,“ segir Søreide um áhrif viðskiptabanns Rússa. „Þegar ríkir ófyrirsjáanleiki í heiminum þar sem sífellt fleiri ákveða að beita valdi í stað sannfæringarmáttar verðum við sem trúum á þjóðaréttinn að rísa upp,“ bætir hún við.
Ráðherrann segir Noreg hafa lagt aukna áherslu á að vekja athygli NATÓ á Norður-Atlantshafi meðal annars vegna aukinnar hernaðaruppbyggingar Rússa á Kólaskaga. „Þetta þýðir þó ekki að við lítum svo á að Rússar ógni Noregi eða NATÓ hernaðarlega. Hins vegar erum við að sjá aukin umsvif og ágengari utanríkisstefnu, svo sem fleiri hernaðaræfingar og flóknari æfingamynstur. Til að mynda hafa verið framkvæmdar í auknum mæli æfingar með árásarsviðsmyndir sem við höfum ekki séð í mörg ár,“ segir Søreide.
Hún tekur fram að tekist hafi að auka áhuga NATÓ á Norður-Atlantshafssvæðinu í samstarfi við Bretland, Ísland og Bandaríkin.
Þriðji orkupakki Evrópusambandsins var umdeildur þegar hann var samþykktur á norska Stórþinginu í vor og stendur til að hann verði lagður fyrir Alþingi í haust. Spurð hvort hún hafi rætt orkupakka sambandsins og hvað felist í því ef Íslendingar skyldu hafna tilskipuninni á fundi sínum með utanríkisráðherra Íslands svarar Søreide því játandi.
„Ég ræddi þetta á fundi mínum með Guðlaugi og á fundi með þingmönnum. Það er mikilvægt fyrir mig að koma því á framfæri að norska Stórþingið hefur samþykkt þessa tilskipun. Fyrir okkur er mikilvægt að tilskipunin sé tekin upp í EES-samninginn, þar sem við nú þegar erum hluti af evrópskum orkumarkaði. Það er ákveðin hætta fyrir okkur ef hún myndi ekki öðlast gildi,“ staðhæfir hún.
Að sögn ráðherrans var umræðan í Noregi nokkuð erfið. „Það voru margar mýtur um málið. Margir héldu því fram að með því að samþykkja þriðja orkupakkann myndum við missa yfirráð yfir orkuauðlindum og orkustefnu landsins, þetta var auðvitað ekki rétt. Noregur myndi aldrei afsala sér þessum rétti.“
Søreide segir rétt að taka umræðuna um málefni af þessu tagi enda þurfi að meta hvort afleiðingar nýrrar löggjafar séu jákvæðar eða neikvæðar. Slík umræða þurfi þó að byggjast á staðreyndum málsins.