Glaður Dagur á Menningarnótt

Dagur setti Menningarnótt á Hafnartogi í dag.
Dagur setti Menningarnótt á Hafnartogi í dag. mbl.is/Valli

„Það er allt á fullu alls staðar og hvar sem maður fer er fullt af fólki með bros á vör,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Mikið er um að vera í miðborg Reykjavíkur í dag þar sem Menningarnótt fer fram í 23. skiptið.

„Ég mun reyna að fara um eins og ég get. Þótt ég fari ekki hratt yfir, maður kemst ekki langt því fólk er mikið að stoppa og spjalla eins og gengur og gerist á Menningarnótt. Þetta er yndislegt alveg. Ég á von á metþátttöku í kvöld,“ segir Dagur.

Mikið er um að vera í miðbænum í dag.
Mikið er um að vera í miðbænum í dag. mbl.is/Valli

Dagur hefur síðustu tíu ár boðið gestum og gangandi í vöfflukaffi heim til sín en ákvað í ár að gera hlé á þeirri hefð og kanna hvað Menningarnótt hefði upp á að bjóða. Svo virðist sem hann hafi ekki orðið fyrir vonbrigðum.

„Þetta er búið að vera dásamlegt. Veðrið er ekki bara frábært heldur svo kærkomið líka. Það er í raun ótrúlegt að einn af fáum sólardögum hitti svo rækilega á Menningarnótt. Enda sér maður það hérna í bænum að það er bros á hverju einasta andliti. Austurvöllur er fullur af fólki sem var greinilega að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu og má vera stolt af sér. Er að láta endorfínið hríslast um æðarnar,“ segir hann og hlær.

Menningarnótt er haldin í ár í 23. skiptið.
Menningarnótt er haldin í ár í 23. skiptið. mbl.is/Valli

Fjölbreytt dagskrá um alla borg 

„Það eru frábær atriði út um allt. Við settum Menningarnótt á Hafnartogi sem er nýja verslunarsvæðið sem mun opna í vetur og þetta er hálfgerð frumsýning á því,“ segir Dagur.

Á meðal viðburða á Menn­ing­arnótt má nefna Topp­inn sem er í um­sjón list­ræna umbreyt­is­ins sem er nýtt embætti Menn­ing­ar­næt­ur. List­ræni umbreyt­ir­inn að þessu sinni er Jó­hann Kristó­fer Stef­áns­son leik­ari. Hann mun breyta efstu hæð bíla­stæðahúss­ins við Hverf­is­götu 20 í „lounge rooftop bar“. Í stað bíla verður fólk, í stað ryks verða plönt­ur og í stað um­ferðarniðar verður dönnuð hou­se-tónlist.

Margt er um manninn í miðbænum í dag.
Margt er um manninn í miðbænum í dag. mbl.is/Valli

Í miðborg­inni verður boðið upp á þrenna stór­tón­leika, Tón­leika Rás­ar 2 á Arn­ar­hóli, en í ár verður sviðið enn stærra en venju­lega, Garðpartý Bylgj­unn­ar í Hljóm­skálag­arðinum og hip hop-tón­leika á Ing­ólf­s­torgi. Þá eru yfir hundrað tón­list­ar­viðburðir um alla borg.

Frítt er inn á öll söfn í miðborg­inni sem bjóða upp á fjöl­breytta dag­skrá fram á kvöld. Þá er Harpa með afar glæsi­lega dag­skrá sem lýkur klukkan 18 og flug­elda­sýn­ing­in verður á sín­um stað á Aust­ur­bakka klukkan 23.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert