Boltinn hjá íbúum og verktökum

Sveitarfélagið Árborg.
Sveitarfélagið Árborg. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er ánægðast­ur með hvað kjör­sókn var góð og að íbú­arn­ir hafi tekið þess­ari áskor­un um íbúa­lýðræði með því að mæta á kjörstað og segja skoðun sína,“ seg­ir Helgi S. Har­alds­son, for­seti bæj­ar­stjórn­ar Árborg­ar. Nýtt aðal­skipu­lag vegna fyr­ir­hugaðrar upp­bygg­ing­ar í miðbæ Sel­foss var samþykkt með ör­ugg­um meiri­hluta í íbúa­kosn­ing­um í gær.

„Síðan ligg­ur það bara fyr­ir hvað íbú­arn­ir vilja, að samþykkja þetta skipu­lag. Þetta fer núna áfram í loka­ferli svo viðkom­andi aðilar geti hafið fram­kvæmd­ir,“ seg­ir Helgi.

Helgi S. Haraldsson, forseti bæjarstjórnar í Árborg.
Helgi S. Har­alds­son, for­seti bæj­ar­stjórn­ar í Árborg. Ljós­mynd/​Aðsend

Nýtt aðal- og deili­skipu­lag var samþykkt af þáver­andi bæj­ar­stjórn í fe­brú­ar og voru það í kjöl­farið íbú­ar sem knúðu fram íbúa­kosn­ingu með und­ir­skrifta­söfn­un.

Var svo ákveðið að ef 29% kjörgengra íbúa tækju þátt í kosn­ing­unni yrði hún bind­andi fyr­ir bæj­ar­stjórn. Kjör­sókn var tæp 55%. Þar af voru 59% hlynnt­ir nýju aðal­skipu­lagi en 39% and­víg­ir.

„Núna verður þetta sent til Skipu­lags­stofn­un­ar og hún aug­lýs­ir þetta. Þegar því er lokið eiga fram­kvæmdaaðilar að geta byrjað í næsta mánuði. Sig­tún þró­un­ar­sjóður hef­ur samið við verk­taka um það sem þarf að gera þannig bolt­inn er hjá þeim að leggja af stað í þessa fram­kvæmd,“ seg­ir Helgi, en Sig­tún þró­un­ar­sjóður ber ábyrgð á verk­efn­inu.

Á meðal þess sem verður í nýj­um miðbæ Sel­foss er heilsu­tengd­ur veit­ingastaður, tísku­versl­un, mat­höll, skyr­sýn­ing, brugg­hús og tón­leik­astaður.

Bæj­ar­full­trú­ar ósam­mála

Óein­ing var um málið inn­an þáver­andi bæj­ar­stjórn­ar þegar aðal­skipu­lagið var samþykkt.

„Það voru ekki all­ir bæj­ar­full­trú­ar meðmælt­ir þessu verk­efni. Þegar málið var af­greitt á sín­um tíma var það ekki gert með at­kvæðum allra bæj­ar­full­trúa. Það var meiri­hluti bæj­ar­stjórn­ar sem samþykkti þetta skipu­lag í fe­brú­ar,“ seg­ir Helgi.

„Í fram­haldi af því kom svo þessi und­ir­skrifta­söfn­un með ósk um íbúa­kosn­ingu sem var svo samþykkt í maí. Nú­ver­andi meiri­hluti bæj­ar­stjórn­ar gaf það svo út fyr­ir kosn­ing­arn­ar að ef 29% tækju þátt yrði niðurstaðan bind­andi. Í raun og veru hef­ur bæj­ar­stjórn ekki meira um þetta að segja, við gáf­um bolt­ann til íbú­anna að ákveða þetta. Það eina sem bæj­ar­stjórn ger­ir núna er að klára lög­form­legu hliðina á þessu og svo geta fram­kvæmdaaðilar haf­ist handa.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert