„Ég er ánægðastur með hvað kjörsókn var góð og að íbúarnir hafi tekið þessari áskorun um íbúalýðræði með því að mæta á kjörstað og segja skoðun sína,“ segir Helgi S. Haraldsson, forseti bæjarstjórnar Árborgar. Nýtt aðalskipulag vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar í miðbæ Selfoss var samþykkt með öruggum meirihluta í íbúakosningum í gær.
„Síðan liggur það bara fyrir hvað íbúarnir vilja, að samþykkja þetta skipulag. Þetta fer núna áfram í lokaferli svo viðkomandi aðilar geti hafið framkvæmdir,“ segir Helgi.
Nýtt aðal- og deiliskipulag var samþykkt af þáverandi bæjarstjórn í febrúar og voru það í kjölfarið íbúar sem knúðu fram íbúakosningu með undirskriftasöfnun.
Var svo ákveðið að ef 29% kjörgengra íbúa tækju þátt í kosningunni yrði hún bindandi fyrir bæjarstjórn. Kjörsókn var tæp 55%. Þar af voru 59% hlynntir nýju aðalskipulagi en 39% andvígir.
„Núna verður þetta sent til Skipulagsstofnunar og hún auglýsir þetta. Þegar því er lokið eiga framkvæmdaaðilar að geta byrjað í næsta mánuði. Sigtún þróunarsjóður hefur samið við verktaka um það sem þarf að gera þannig boltinn er hjá þeim að leggja af stað í þessa framkvæmd,“ segir Helgi, en Sigtún þróunarsjóður ber ábyrgð á verkefninu.
Á meðal þess sem verður í nýjum miðbæ Selfoss er heilsutengdur veitingastaður, tískuverslun, mathöll, skyrsýning, brugghús og tónleikastaður.
Óeining var um málið innan þáverandi bæjarstjórnar þegar aðalskipulagið var samþykkt.
„Það voru ekki allir bæjarfulltrúar meðmæltir þessu verkefni. Þegar málið var afgreitt á sínum tíma var það ekki gert með atkvæðum allra bæjarfulltrúa. Það var meirihluti bæjarstjórnar sem samþykkti þetta skipulag í febrúar,“ segir Helgi.
„Í framhaldi af því kom svo þessi undirskriftasöfnun með ósk um íbúakosningu sem var svo samþykkt í maí. Núverandi meirihluti bæjarstjórnar gaf það svo út fyrir kosningarnar að ef 29% tækju þátt yrði niðurstaðan bindandi. Í raun og veru hefur bæjarstjórn ekki meira um þetta að segja, við gáfum boltann til íbúanna að ákveða þetta. Það eina sem bæjarstjórn gerir núna er að klára lögformlegu hliðina á þessu og svo geta framkvæmdaaðilar hafist handa.“