Segir meintan þrýsting ýkjur

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG, segir það ekki upplifun hennar …
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG, segir það ekki upplifun hennar að utanríkisráðherra Noregs hafi beitt þingmenn þrýstingi vegna innleiðingar þriðja orkupakka Evrópusambandsins. mbl.is/Hari

„Ég túlka það ekki þannig að það hafi verið um þrýsting að ræða í hennar orðum. Það eru ýkjur að tala um þrýsting á íslenska þingmenn,“ segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG og varaformaður utanríkismálanefndar, í samtali við blaðamann mbl.is um fund þingmanna með Ine Marie Erik­sen Sørei­de, utanríkisráðherra Noregs.

Ráðherrann fundaði með fulltrúum Alþingis í síðustu viku er hún var stödd á Íslandi. Í kjölfar heimsóknarinnar hafa andstæðingar innleiðingar þriðja orkupakkans í Noregi sakað Sørei­de um að beita íslenska ráðamenn þrýstingi í þeim tilgangi að Ísland samþykki þessa tilskipun frá Evrópusambandinu.

Góður fundur

„Hún fór yfir feril málsins í Noregi, í Stórþinginu og skýrslu þeirra um málið. Síðan hvernig umræðan í samfélaginu hefði verið og að þessu hafi lokið með atkvæðagreiðslu eftir þinglega umræðu. Ég gat ekki skilið það svo að í þessu væri einhver þrýstingur af hálfu hennar á okkur þingmenn. Ég myndi segja að þessi orð væru ýkt,“ segir Rósa Björk.

Hún segir ráðherrann norska ekki hafa lagt áherslu á einhverjar slæmar afleiðingar fyrir Noreg skyldi þriðja orkupakka Evrópusambandsins vera hafnað. „Hún ræddi þetta ekkert sérstaklega á fundi með okkur. En það var rætt um að það sé búið að samþykkja fyrsta og annan pakka [orkupakka], og það yrði þá nokkuð sérkennilegt að þriðja pakkanum yrði þá hafnað.“

Samkvæmt Rósu Björk var orkupakki Evrópusambandsins ekki eina málið sem var rætt á fundi þingmanna og Sørei­de. „Við áttum bara í orðaskiptum á þessum fundi sem var lokaður fjölmiðlum og fórum yfir þetta mál og önnur mál. Ég spurði til dæmis um varnarsamstarf á Norður-Atlantshafi milli Noregs og Íslands. Ég spurði einnig um stefnu Noregs í innflytjendamálum, sem hefur verið að harðna undanfarin ár. Þá var rædd sala á heyi og sitthvað fleira. Þetta var mjög góður fundur.“

„Undarleg afbökun“

Í yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra að það sé „furðulegur misskilningur“ að Sørei­de hafi beitt sig þrýstingi vegna málsins. Hann segir fund sinn með norskum kollega sínum í Reykholti hafa verið gagnlegan og að rædd hafi verið „fjölmörg sameiginleg hagsmunamál“.

Þá segir hann orkumál hafa verið eitt málefni meðal margra og að hún hafi í stuttu máli sagt frá nálgun Norðmanna í málaflokknum. „Það er undarleg afbökun að telja að í þessu felist einhvers konar þrýstingur gagnvart íslenskum stjórnvöldum,“ segir Guðlaugur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert