Fulltrúar minnihlutans í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkur vilja að Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, biðjist formlegrar afsökunar og dragi til baka ummæli sín um að trúnaður hafi verið brotinn á síðasta fundi ráðsins eftir að minnihlutinn gekk af fundinum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins lögðu fram á fundi ráðsins núna á föstudaginn lögfræðiálit lögfræðistofunnar BBA Legal um að fyrri fundur hafi ekki verið boðaður með réttum hætti og þar af leiðandi væri ekki hægt að taka bindandi ákvarðanir á honum.
Vegna þess hvernig boðun á fundinn var gengu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins af fundinum, en Kristín sagði í kjölfarið að fundurinn hafi verið fullkomlega löglegur og að brugðist hafi verið við seinkun á útsendingu gagna. Hins vegar hafi fulltrúar Sjálfstæðisflokksins tjáð sig við fjölmiðla áður en fundinum var lokið þótt trúnaður ætti að ríkja þangað til að fundi loknum.
„Til hamingju Reykvíkingar, þau brutu trúnað, skrópuðu í vinnunni og misstu af öllum kynningum til þess eins að fá þessa fínu mynd af sér,“ sagði Kristín.
Minnihlutinn telur hins vegar að þau hafi ekki brotið trúnað, enda ekki setið fundinn eins og komi fram í fundargerð. Það geti því ekki verið trúnaður um fund sem þau sitji ekki.