Strætisvagnstjóri í síma undir stýri

Myndskeið náðist af strætisvagnstjóra í dag þar sem hann virðist vera tala í síma undir stýri. „Þetta er náttúrulega stranglega bannað, þetta er lögbrot. Þegar við fáum svona ábendingar þá sendum við þær alltaf áfram á rétta aðila og þeir [vagnstjórarnir] eru áminntir í starfi,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason, markaðs- og upplýsingafulltrúi Strætó bs., í samtali við mbl.is.

„Þessi vagn er á vegum Kynnisferða. Í þeim tilvikum komum við málinu til mannauðsdeildar hjá viðkomandi verktaka og hann tekur á því máli innanhúss hjá sér. Það verður gert,“ bætir Guðmundur við og segir að venjan sé að starfsmenn séu áminntir í starfi vegna slíkra brota.

Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdarstjóri Strætó bs., vildi ekki tjá sig um það hvernig er tekið á einstaka málum innan fyrirtækisins en segist líta alvarlegum augum á athæfið. 

„Við lítum á öll öryggisfrávik alvarlegum augum og við hörmum að vagnstjóri sé að gera svona,“ segir Jóhannes í samtali við mbl.is.

Ekki náðist í deildarstjóra Kynnisferða vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka