Talsvert vantar upp á viðhald ýmissa landsbyggðarvega, sér í lagi heimreiða upp að gistiheimilum, veitingahúsum og öðrum þjónustumiðstöðvum, að sögn ferðaþjónustunnar.
„Við erum að fá kvartanir yfir [heimreiðinni] og gengur ansi illa að fá Vegagerðina til að laga þokkalega,“ skrifaði Ingi Ragnarsson um holur í heimreiðinni að gisti- og veitingahúsinu sem hann rekur á Djúpavogi í Facebook-hópinn Bakland ferðaþjónustunnar.
„Samkvæmt vegalögum er þetta náttúrlega á forræði Vegagerðarinnar,“ segir Ingi í Morgunblaðinu í dag. „Það er náttúrlega bara peningaleysið sem þeir kenna um. Það hefur breyst mikið í sveitunum. Það eru ekki bara bændur núna sem eru að keyra um þessi svæði og viðhaldsleysið er vandamál á mörgum ferðaþjónustubæjum. Dekk hafa sprungið í heimreiðinni okkar og margir veigra sér við því að keyra niður til okkar þegar þeir sjá veginn. Þegar maður sér veitingastað en sér síðan drullusvað í áttina að honum gefur það kannski ekki góða mynd af framhaldinu.“