„Á þessum fundi kom það sterkt fram að krafa er um ákveðin kynslóðaskipti á landsvísu. Það er ríkur vilji til að fá ungt fólk í forystuna,“ segir Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar á Húsavík.
Kosið verður um nýjan forseta ASÍ á þingi sambandsins í október og nú standa yfir þreifingar um mögulega frambjóðendur í embættið og varaforseta. Þegar hafa tvö lýst því yfir að þau gefi kost á sér til forseta, þau Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, og Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs.
Ekki virðist einhugur um þessa frambjóðendur innan verkalýðshreyfingarinnar, samkvæmt eftirgrennslan Morgunblaðsins. Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar fundaði í vikunni og þar kom fram að „það væri löngu tímabært að velja ungt fólk til forystustarfa, fyrir Alþýðusambandið“. Virðast fundarmenn því ekki telja þau Drífu og Sverri rétta fulltrúa þess hóps og það staðfesti Aðalsteinn í samtali við Morgunblaðið.