Ríkislögreglustjóri hefur safnað saman öllum tiltækum upplýsingum um einstaklinga sem hafa horfið frá árinu 1945 og eru enn ófundnir í eina skrá yfir týnda einstaklinga. Skrá embættisins telur 120 einstaklinga og er unnin upp úr gagnagrunni kennslanefndar, að því er fram kemur í ársskýrslu ríkislögreglustjóra.
Af þeim 120 einstaklingum sem eru á listanum hefur rúmlega helmingur horfið á sjó og telja þeir 64. Frá aldamótum hafa 8 týnst á sjó, en þar af týndust 5 árið 2001. Árið 1980 er sérstaklega áberandi en þá hurfu 12 á sjó, þar af sjö við Ísafjarðardjúp, en sex þeirra voru rækjusjómenn sem hurfu í miklu vonskuverði 25. febrúar það ár.
Fram kemur í ársskýrslunni að upplýsingarnar um hvörf þessara 120 einstaklinga séu mjög mismunandi og varðar það bæði efnisatriði og tegundir gagna. Einnig segir að „eldri skýrslur [séu] iðulega ónákvæmar en almennt eru fyrirliggjandi upplýsingar nákvæmari eftir því sem nær nútíma dregur.“
Upplýsingarnar sem skráin byggir á hafa verið færðar inn úr gömlum skjalaskrám og eru upplýsingarnar um einstaklingana oftast frá lögreglu. Einnig eru upplýsingar fengnar úr gögnum Slysavarnafélagsins og blaðaúrklippum sem sagðar eru í stökum tilfellum vera einu upplýsingarnar um hvarf einstaklinga.
Í dag eru upplýsingar um einstaklinga sem hverfa og hvarf þeirra skráð með stöðluðu verklagi og fært inn í gagnagrunn kennslanefndar og lögreglukerfið (LÖKE). Skrá yfir þá horfnu var kláruð í þessum mánuði og er sögð liggja töluverð vinna að baki hennar.