Enginn gestur leið fyrir ákvörðunina

Þorsteinn fullyrðir að enginn hafi liðið fyrir þá ákvörðun að …
Þorsteinn fullyrðir að enginn hafi liðið fyrir þá ákvörðun að sameina svæðin. Haraldur Jónasson/Hari

„Þær breytingar sem gerðar voru á salnum til að mæta því að tónleikagestir voru um 4.300 talsins en ekki 10.000, eins og upphaflegar vonir stóðu til, áttu sinn þátt í að tryggja að stemmningin var eins og hún var. Ég stend því og fell með ákvörðun minni,“ segir Þorsteinn Stephensen, eigandi fyrirtækisins Hr. Örlygs sem hélt Arcade Fire-tónleikana sem fóru fram í Laugardalshöll síðastliðinn þriðjudag.

Einhverjir tónleikagesta hafa lýst yfir ónægju sinni vegna þess að ákveðið var að sameina A- og B-svæði á tónleikunum, þar sem svo fáir miðar höfðu selst á B svæðið, eða aðeins 79. Miðar á A-svæði voru töluvert dýrari en á B-svæði og voru því einhverjir sem töldu sig hlunnfarna.

Búið var að gefa út að engar endurgreiðslur færu fram vegna þessa breytta skipulags sem ákveðið var á síðustu stundu.

Þorsteinn útskýrði ákvörðun sína á Facebook-síðu Hr. Örlygs í gær og sagði hann flesta hafa haft skilning á henni. „Ég hef rætt við þó nokkra aðila sem vildu fá skýringu á þessu og langflestir þeirra hafa samþykkt mína hlið málsins og farið sáttir frá. Jafnframt á ég enn eftir að hitta þá manneskju sem er ósátt við sjálfa tónleikana. Álit allra þeirra sem ég hef rætt við er að þeir hafi verið frábærir.“

Eins og að fá óvænt betra sæti í flugvél

Þorsteinn segir að ljóst sé að hagnaður af viðburðinum sé enginn þar sem aðeins seldust um 4.300 miðar á viðburðinn. Í ljósi dræmrar miðasölu hafi hann tekið skyndiákvörðun rétt fyrir tónleikana um að þrengja salinn og sleppa B-svæði.

„Þessi ákvörðun er tekin á staðnum nokkrum klukkustundum áður en tónleikar hófust og þeir aðilar sem höfðu keypt sér miða á B-svæði „upgrade-uðust“ því óvænt. Ég átti satt að segja ekki von á neinu ósætti vegna þess og ég hugsaði ekki út í það að einhverjum sem keypt höfðu miða á A-svæði fyndust þeir hlunnfarnir. Ég skil vel þá aðila sem keyptu A-miða sama dag og tónleikarnir fóru fram sem líta nú í eigin barm og hugsa með sjálfum sér að þeir hefðu getað keypt ódýrari miða og fengið sama fyrir. Það að einhver annar fái óvæntan glaðning en ekki þú er jafnframt eitthvað sem öllum er fyllilega frjálst að svekkja sig yfir.“

Þorsteinn segir það hins vegar ekki hafa verið þannig að þeir sem keyptu miða á A-svæði hafi verið hlunnfarnir.

„Það voru einfaldlega þessar 79 manneskjur sem keyptu miða á B-svæði sem fengu meira en þau áttu von á og slíkt getur gerst við ýmis tilefni t.d. þegar maður fær óvænt betra sæti í flugvél en það sem greitt var fyrir. Tónleikagestir voru samtals um 4.300 en Höllin var sett upp fyrir 6.500 manns. Ég get því fullyrt að enginn tónleikagestur leið fyrir þessa ákvörðun.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert