„Ég veit ekki alveg hvert þetta fyrirtæki er að fara. Fyrir góða fólkið og fyrir vonda fólkið. Ég hef ekki húmor fyrir þessu,“ segir Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, um nýjasta slagorð Strætó bs. í samtali við mbl.is.
Hún birti fyrr í dag mynd af strætisvagni með skilaboðunum „Besta leiðin fyrir góða fólkið og vonda fólkið“ og gaf til kynna að sér væri ekki skemmt.
Hún segist vera gagnrýna bæði sóun á skattfé landsmanna sem og skilaboðin sem fyrirtækið er þarna að senda.
„Það er fyrst og fremst fjárhagshliðin, að það skuli verið að fara svona með skattfé landsmanna um leið og ríkið er að leggja til milljarð á ári í rekstur Strætó. Af hverju er verið að eyða peningum í vitleysu eins og að vera með svona grín á strætó?“ spyr Vigdís.
„Svo er verið að reyna uppræta einelti og mismunun og að allir eigi að vera jafnir. En svo birtist þetta á strætó, fyrir góða fólkið og vonda fólkið,“ bætir hún við. Þá spyr hún einnig af hverju ekki sé verið að selja auglýsingar á strætisvagna til að fjármagna reksturinn.
Engar kvartanir hafa borist vegna skilaboðanna en það er ekki óeðlilegt þar sem þau eru tiltölulega nýkomin á strætisvagna, segir Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdarstjóri Strætó bs., í samtali við mbl.is.
Hann segir ekki um auglýsingu að ræða heldur einungis skemmtileg skilaboð sem hafi „svo sem enga meiningu“ nema að vera skemmtiefni. Hann segir þau eiga koma því til skila að strætó sé fyrir alla.
Fyrirtækið hefur fengið margar kvartanir vegna skilaboða í þessum anda í gegnum tíðina og segir Jóhannes að þær séu allar teknar til skoðunar.