Borgarráð Reykjavíkur hefur samþykkt breytingu á deiliskipulagi fyrir Laugavegar-Skólavörðustígsreit vegna lóðarinnar nr. 1 við Hallveigarstíg. Í breytingunni felst heimild til veitingastarfsemi sem íbúar í nágrenninu höfðu lagst hart gegn. Töldu þeir nóg komið af háværri veitingastarfsemi í hverfinu. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins.
Í breytingunni felst að grafið verður út svæði á norðurhlið Hallveigarstígs 1. Heimilt verður að vera með útisvæði og veitingar. Jarðhæð (kjallarahæð) skal vera björt og opin og einkennast af stóru óskyggðu gleri.
Þegar deiliskipulagstillagan var auglýst bárust athugasemdir frá íbúum og rekstraraðilum í nágrenninu, þ.e. við Skólavörðustíg og Ingólfsstræti. Athugasemdir íbúa í Ingólfsstræti 7b lýsa vel áhyggjum íbúa á svæðinu. Þar segir m.a:
„Hávaðamengun verður að öllum líkindum mikil þar sem kliður, samtöl og hljómlist bergmálar þarna auðveldlega vegna hárra húsa umhverfis. Við þurfum nú þegar að búa við allnokkurn hávaða og ónæði frá nærliggjandi krám og veitingastöðum svo ekki sé talað um alla vöruflutninga og eril vegna verslunarinnar Bónuss. Mun umrædd breyting og hafa mikil áhrif á aðgengi að bílastæði/um sem er vægast sagt erfitt eins og staðan er núna. Mikil fjölgun ferðamanna hefur haft það í för með sér að það er stöðugur straumur fólks í nágrenninu og finnst okkur ekki á það bætandi með opnun veitingastaðar á þessum stað. Einnig fylgir svona rekstri iðulega ónæði frá drukknu fólki sem gerir jafnvel þarfir sínar í nærliggjandi görðum og lóðum auk hávaða frá þeim.“ Segja íbúarnir það varla vera eftirsóknarvert að vera umkringdur háværri starfsemi, nánast allan sólarhringinn, alla daga nema á jólanótt.
Íbúi á Skólavörðustíg 6b bendir á í athugasemd sinni að nokkur dæmi séu um að íbúar við Ingólfsstræti hafi flúið annað. Enda séu níu veitingastaðir á stuttum kafla, frá Hverfisgötu að Amtmannsstíg, og tveir þeirra séu með útiaðstöðu sem hafi valdið miklu ónæði í hverfinu.
Í svari embættis skipulagsfulltrúa Reykjavíkur kemur fram að breytingin sé talin jákvæð fyrir svæðið, sem í dag einkennist af lokaðri götuhlið til norðurs og óspennandi landslagshönnun.
Landnotkun við Hallveigarstíg 1 heimili nú þegar fjölbreytta atvinnustarfsemi sem samrýmist miðborgarbyggð, þ.ám. veitingastarfsemi. Fasteignin sé innan svæðis í miðborginni þar sem gilda takmarkaðar vínveitingaheimildir, þ.e.a.s. heimilað að reka veitingastað í flokki I-III, þó með takmarkaðan afgreiðslutíma til klukkan 23 virka daga og 1:00 um helgar. Athugasemdir vegna röskunar og hávaða vísist til heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, sem fer með eftirlit hollustuhátta í borginni og gefur út starfsleyfi vegna starfsemi veitingastaða. Leggur skipulagsfulltrúinn til að tillagan verði samþykkt með þeirri breytingu að bætt er við texta í skilmála þess efnis að óheimilt sé að byrgja fyrir glugga, t.d. með filmum.