Braut blað í íslenskri viðskiptasögu

Bogi Nils Bogason, sitjandi forstjóri Icelandair Group.
Bogi Nils Bogason, sitjandi forstjóri Icelandair Group. mbl.is/​Hari

„Hann hefur verið mjög öflugur og farsæll leiðtogi og forstjóri,“ segir Bogi Nils Bogason, sitjandi forstjóri Icelandair Group, um Björgólf Jóhannsson sem sagði starfi sínu lausu í gær eftir tíu ár sem forstjóri félagsins. Bogi segir ákvörðun Björgólfs hafa komið á óvart.

Að sögn Boga var atburðarás gærdagsins hröð eftir að Björgólfur tók ákvörðun sína og tilkynnti hana stjórninni. Bogi féllst strax á þá ósk stjórnarinnar að hann myndi gegna stöðu forstjóra tímabundið, eða þar til stjórnin hefur fundið félaginu forstjóra til framtíðar.

„Hér er náttúrulega frábært fólk og frábærir innviðir. Eins og fram kemur í tilkynningu Björgólfs þurfum við að vinna í ákveðnum þáttum, við ætlum að laga það sem bjátað hefur á hjá okkur,“ segir Bogi, sem hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra fjármála hjá Icelandair Group síðan 2008, eða aðeins nokkrum mánuðum skemur en Björgólfur.

„Við erum búnir að vinna mjög náið saman. Það hefur ýmislegt gengið á og þetta hafa verið mjög skemmtilegir tímar, upp og niður eins og gengur í flugrekstri.“

Aðspurður segir Bogi það mjög lýsandi fyrir persónu Björgólfs að axla ábyrgð með þessum hætti, en Björgólfur tilkynnti að hann hefði sagt starfi sínu lausu samhliða tilkynningu um lækkun afkomuspár fyrir árið 2018. „Björgólfur er að brjóta blað í íslenskri viðskiptasögu með því að taka á sig ábyrgð með þessum hætti.“

Hlutabréf í Icelandair Group hafa lækkað talsvert frá opnun markaða í morgun og segir Bogi það eðlilegt. „Þannig virkar markaðurinn. Við þurfum að vinna að því að laga þessa hluti og skila betri arðsemi til okkar hluthafa. Það er okkar stóra verkefni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert