Sameinast flugfélögin fyrr en síðar?

Kristján veltir því upp hvort íslensku flugfélögin tvö muni sameinast …
Kristján veltir því upp hvort íslensku flugfélögin tvö muni sameinast á endanum. mbl.is/Samsett mynd

„Staðan á íslenskum flugmarkaði var krítísk í síðustu viku og hún er enn þá flóknari núna,“ segir Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túrista, um tíðindi gærdagsins, en þá sagði Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, starfi sínu lausu.

Sagðist Björgólfur með því vilja axla ábyrgð, þar sem ákvarðanir teknar á  hans vakt hefðu valdið félaginu fjárhagslegu tjóni árinu. En samkvæmt uppfærðri afkomuspá mun afkoma ársins verða lægri en gert var ráð fyrir.

„Það verður áhugavert að sjá hvernig stjórnendur Icelandair munu vinda ofan af þeim mistökum sem voru tilgreind í tilkynningunni í gær,“ segir Kristján. Í yfirlýsingu frá Björgólfi benti hann meðal annars á að breytingar sem gerðar voru á leiðakerfi félagins í byrjun ársins hefðu valdið misvægi á milli framboðs fluga til Evrópu annars vegar og Norður-Ameríku hins vegar.

Kristján segir áhugavert að sjá hvernig stjórnendur Icelandair munu vinda …
Kristján segir áhugavert að sjá hvernig stjórnendur Icelandair munu vinda ofan af þeim mistökum sem gerð hafa verið. Ljósmynd/Aðsend

„Mun félagið fækka ferðum og áfangastöðum í Bandaríkjunum til að ná á ný jafnvægi í leiðakerfinu milli Ameríku- og Evrópuflugs? Gæti sú breyting svo orðið til þess að meðalfargjaldið hækki líkt og unnið hefur verið að. Lægra olíuverð virðist alla vega ekki vera í kortunum og þá gæti verið kostur fyrir Icelandair að selja hluta af eldri flugvélunum og nýta í staðinn þær nýju sem eru miklu sparneytnari.“

Síðustu vikur hefur átt sér stað mikil umræða um stöðuna á íslenskum flugmarkaði og Kristján segir þessi nýjustu tíðindi gera þá umræðu enn mikilvægari.

„Fókusinn hefur verið á WOW air síðustu daga enda er félagið að reyna að styrkja fjárhagsstöðu sína með skuldabréfaútboði. Það er spurning hvort þessar fréttir af vanda Icelandair geri WOW auðveldara eða erfiðara um vik að klára það útboð.“

Kristján segir að einhverjir gætu metið stöðuna þannig að WOW air sé að eiga við álíka vandamál og Icelandair, þ.e. lág fargjöld, hækkandi launakostnað og hærra olíuverð.

„Svo gæti skýringin á samdrættinum hjá Icelandair einfaldlega verið sú að WOW air sé að taka mikið til sín. Íslensku flugfélögin tvö eru hins vegar lítil á þeim markaði sem þau leggja mesta áherslu á, þ.e. flug milli Evrópu og Norður-Ameríku og þau leiða ósennilega verðmyndunina á þeim flugleiðum. Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvort þetta endi á því að flugfélögin tvö sameinist fyrr en síðar. Sennilega hefðu samkeppnisyfirvöld hér á landi eitthvað út á það að setja en sem fyrr segir þá eru þessi félög hluti af stærri markaði en þeim íslenska.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert