„Það var búið að hengja hana og festa ólar og bönd á hana út um allt,“ segir Ronja Auðunsdóttir í samtali við mbl.is. Hún setti færslu inn á Facebook-hópinn Kattavaktin fyrr í kvöld þar sem hún óskaði eftir hjálp við að koma ketti, sem hún og fimm ára sonur hennar fundu, undir læknishendur.
„Það var búið að festa loppurnar saman, binda skottið og líkamann með netaböndum og svo var brúnt plastband utan um hálsinn á henni. Það var líka rauð plastól sem skarst inn í líkamann á henni,“ lýsir Ronja með hryllingi og bætir við: „Maður sá greinilega að það var búið að berja hana og meiða. Það átti greinilega að drepa hana.“
Ronja og sonur hennar voru í hjólatúr í Hellisgerði í Hafnarfirði þegar þau fundu kisuna Lísu. Tilviljun og heppni varð til þess að hún fannst enda búið að festa hana við runna og plastband um hálsinn á henni gerði það að verkum að hún gat ekki mjálmað. „Þetta var bara heppni. Sonur minn var að leita að álfum, það hefði ekki verið möguleiki að sjá hana annars,“ segir Ronja sem var eðlilega í miklu uppnámi.
Ronja hófst þegar handa við að reyna að losa böndin og ólarnar en það gekk illa fyrst um sinn. Böndin voru strekkt og hún var ekki með nein verkfæri á sér. Hún kallaði eftir hjálp sem barst að lokum og á endanum náðist að losa kisuna og koma henni á dýraspítala. Ronja segir kisuna hafa litið betur út eftir að búið var að hlúa aðeins að henni. Hún bíður frekari fregna frá dýraspítalanum og á von á upplýsingum á morgun eða næstu dögum.
Hún óttaðist það versta fyrst þegar hún kom að kisunni og hélt að hún væri dáin. „Það heyrðist ekkert í henni fyrst en svo þegar búið var að losa af henni böndin þá byrjaði hún aðeins að mjálma,“ segir Ronja sem telur að kisan hafi legið þarna síðan um helgina eða lengur.
„Hún er ábyggilega búin að liggja þarna í fleiri daga. Það var nálykt af henni og drep í sárunum,“ bætir Ronja við.
Ronja segist miður sín yfir því að sonur hennar hafi orðið vitni að slíkri grimmd. „Engin börn eiga að sjá svona, enginn á að sjá svona og þetta á ekki að vera til,“ segir hún að lokum.
Kisan heitir Lísa og er örmerkt en ekki hefur tekist að hafa uppi á eigendum hennar.