„Þótt flugfélögin séu að vinna í sínum fjárhag þá er ekkert sem bendir til annars en að þau muni halda áfram að flytja fólk til og frá landinu,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri um þá stöðu sem uppi er hjá íslensku flugfélögunum.
Björgólfur Jóhannsson lét af störfum sem forstjóri Icelandair Group samhliða tilkynningu um lækkandi afkomuspá á mánudagskvöld og WOW air hafði áður tilkynnt að félagið hygði á útgáfu skuldabréfa upp á sex til tólf milljarða króna til að endurfjármagna skuldir og brúa fjárþörf fram að frumútboði félagsins.
„Ferðaþjónusta á Íslandi er nátengd fluginu, nánast allir ferðamenn sem hingað koma koma með flugi,“ segir Skarphéðinn. Hann segir enga sérstaka ástæðu til þess að hafa áhyggjur af stöðunni. „Við lítum bara svo á að þetta séu fyrirtæki að fást við sína fjármögnun og treystum því að það verði allt í standi til lengri tíma.“
Í yfirlýsingu Björgólfs kom fram að breytingar á leiðakerfi Icelandair í byrjun árs hafa valdið misvægi á milli framboðs fluga til Evrópu annars vegar og Norður-Ameríku hins vegar og að af þeim sökum hafi spálíkön ekki virkað sem skyldi. Ritstjóri Túrista.is, Kristján Sigurjónsson, velti því meðal annars fyrir sér í viðtali við mbl.is hvort félagið myndi fækka ferðum og áfangastöðum í Bandaríkjunum til þess að ná jafnvægi í leiðakerfinu á milli Ameríku- og Evrópuflugs.
„Það eru sífelldar breytingar í leiðakerfinu, en flugfélögin hafa ekki gefið út að það séu neinar meiri háttar breytingar á leiðakerfinu fram undan svo það er engin ástæða til að ætla það,“ segir Skarphéðinn. Hann segir eðlilegt að nýir áfangastaðir komi inn og aðrir detti út.
„Við upplifðum það á síðasta ári að Air Berlin datt út og þá dró verulega úr flugsætaframboði á milli Íslands og Þýskalands. Það hafði áhrif á fjölda þýskra ferðamanna. Auðvitað hefur framboð á flugsætum áhrif á ferðaþjónustuna, en það er ekkert sem bendir til þess að gerðar verði einhverjar meiri háttar breytingar á leiðakerfinu, þó að það verði hugsanlega einhverjar minni háttar breytingar.“
Skarphéðinn segir Ferðamálastofu ganga út frá því að flugfélögin leysi sín fjármál og því sé ekki ástæða til að hafa áhyggjur. „Við höfum ekki ástæðu til að ætla annað en að þessi fyrirtæki komist í gegnum þetta.“