Tvöfalt fleiri vilja göngugötur árið um kring

Sumargöturnar eru opnar (lokaðar) frá 1. maí til 1. október. …
Sumargöturnar eru opnar (lokaðar) frá 1. maí til 1. október. Meðal þeirra eru Laugavegur, Bankastræti, Skólavörðustígur, Pósthússtræti og nokkrar enn. Eggert Jóhannesson

71% Reykvíkinga er ánægt með göngugöturnar í miðbænum, ef marka má nýja könnun Maskínu ehf. fyrir borgaryfirvöld. 11% eru neikvæð. Þetta breytist lítið á milli ára og í fyrra voru 75% íbúa jákvæð gagnvart göngugötunum á sumrin.

Það sem hefur breyst er að tvöfalt fleiri vilja hafa göngugöturnar allan ársins hring. Nú eru 25% hlynnt því en í fyrra voru aðeins 12%.

Íbúar Grafarvogs, Breiðholts og Kjalarness voru hvað síst spenntir fyrir göngugötunum en á Kjalarnesi voru ekki nema 41% jákvætt gagnvart göngugötunum.

5% borgarbúa vilja einfaldlega engar göngugötur, hvorki á sumrin né veturna. Sumir benda á að þetta henti illa hreyfihömluðum og fötluðum. Aðrir skrá einfaldlega ástæður eins og: „Öll umferð í borginni er í ólestri.“ Einn segir þetta bera keim af „andbílisma“ og öðrum þykir þetta hvorki meira né minna eiga „engan rétt á sér“.

Könnunin var lögð fyrir Reykvíkinga á aldrinum 18-75 úr öllum hverfum, sem dregnir voru með tilviljun úr Þjóðskrá. Svarendur voru 768. Könnunin er hérna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert