„Eins og ég hafi verið slegin í gólfið“

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra.
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra. mbl.is/Hari

„Í fljótu bragði er þetta dálítið þungt högg,“ segir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, um úrskurð gerðardóms í kjaradeilu ljósmæðra við ríkið. Katrín segir eitthvað jákvætt í úrskurðinum en ekkert sé minnst á leiðréttingu á launasetningu ljósmæðra.

Vanar að fá klapp á bakið

„Ég er ekki að sjá neina beina grunnlaunahækkun ljósmæðra, sem var okkar helsta baráttumál, og mér finnst þetta svolítið í anda þess sem verið hefur,“ segir Katrín og heldur áfram:

Þetta er gott klapp á bakið og við erum vanar því að fá klapp á bakið fyrir vel unnin störf. Það dugar ekki til.

Samkvæmt úrskurðinum á að meta kandídatsgráðu ljósmæðra til jafns við hjúkrunarfræðing með tveggja ára sérnám. Katrín segist eiga eftir að sjá hvernig það verði útfært. 

Á að tengja töflurnar saman eða hvernig verður þetta fest? Þetta hefur svolítið verið þannig að ljósmæður hafa hækkað en síðan losna samningar hjá hjúkrunarfræðingum og þá hækka þær,“ segir Katrín og bætir við að hún hefði viljað sjá töflurnar festar saman.

Hún segir jákvætt að úrskurðað sé að nemar fái greidd laun á námstíma frá 1. september. „Það hefur ekki verið til umræðu í þessari lotu og maður hélt að það ætti heima meira á milli spítalans og háskólans. Það kemur því skemmtilega á óvart.“

Hefur áhyggjur af þeim sem hafa ekki dregið uppsagnir til baka

Næstu skref að sögn Katrínar er að fara yfir úrskurðinn með lögfræðingi og hagfræðingi frá BHM. „Það eru voða miklar hvatningar og klapp á bakið í þessu en lítið í hendi. Mér líður eins og ég hafi verið slegin í gólfið.“

Katrín hefur einnig áhyggjur af þeim ljósmæðrum sem ekki hafa dregið uppsagnir sínar til baka og ætluðu að bíða niðurstöðu gerðardóms. Farið verður yfir úrskurðinn með félagskonum í ljósmæðrafélaginu sem fyrst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert