Icelandair færir störf til Eistlands

Bogi Nils Bogason, starfandi forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, starfandi forstjóri Icelandair. mbl.is/​Hari

Starfandi forstjóri Icelandair Group, Bogi Nils Bogason, segir í samtali við Viðskiptablaðið í dag að félagið stefni að því að færa hluta bak- og bókhaldsvinnslu sinnar til eistnesks dótturfélags, þar sem launakostnaður er lægri.

„Við erum komin að ákveðinni stærð þannig að það getur orðið hagkvæmt að útvista eða flytja einhverja þætti. Við sjáum flugfélög gera það,“ segir Bogi í samtali við Viðskiptablaðið.

Dótturfélag Icelandair Group hefur verið starfandi í Eistlandi til margra ára og segir Bogi að ákveðnir einfaldir þættir í rekstri fyrirtækisins, eins og tekjubókhaldið, hafi þegar verið færðir þangað. Hann segir félagið hafa verið að færa ýmsa hluta bókhalds- og bakvinnslu sinnar þangað og ætli áfram að vinna í því.

Ekki stendur til að færa til áhafnir flugvéla Icelandair, þær verða áfram íslenskar, samkvæmt því sem Viðskiptablaðið hefur eftir Boga.

Í viðtalinu segir hann einnig að núverandi verðlagning á flugfargjöldum geti ekki gengið til lengdar, þar sem ákveðin flugfélög selji fargjöld undir kostnaðarverði og taki mið af því í áætlunum sínum að verð fargjalda muni hækka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert