Eyþór Arnalds Laxdal, oddviti Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn Reykjavíkur, segir það athugavert að skuldir borgarinnar hækki á sama tíma og rekstrarniðurstaða A- og B-hluta borgarinnar fyrir fyrstu sex mánuði ársins er jákvæð um 9,15 milljarða króna.
„Skuldir eru að hækka og handbært fé er að lækka og það er ekki besti undirbúningurinn fyrir möguleg áföll ef þau koma fyrir. Borgin ætti að vera að borga niður skuldir sínar en það er þveröfugt,“ segir Eyþór í samtali við mbl.is. Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir fyrstu sex mánuði ársins var afgreiddur í borgarráði í dag.
Þar kemur meðal annars fram að rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 4,6 milljarða króna en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 2,5 milljarða og var því rúmlega tveimur milljörðum umfram áætlun.
„Það er augljóst að það er góðæri og tekjur Reykjavíkurborgar hafa aldrei verið meiri, um það er ekki deilt,“ segir Eyþór, en bendir á sama tíma á að á meðan ríkið borgar niður skuldir sínar er Reykjavíkurborg að auka skuldir þrátt fyrir að vera með tekjustofna í botni.
Þá bendir Eyþór á að skuldasöfnun borgarsjóðs í góðæri sé ekki sjálfbær og að þeirri þróun þurfi að snúa við. „Það sem einkennir reksturinn er að það er mikið af tekjum en þær duga ekki til miðað við þær fjárfestingar sem borgin stendur í. Þegar þetta er samandregið er þetta ekki sjálfbært. Það sem er ekki sjálfbært í góðæri er ekki sjálfbært þegar á móti blæs,“ segir Eyþór.
Hann segir það mikilvægt að flokkarnir í borgarstjórn horfi til skuldalækkunar við gerð fjárhagsáætlana fyrir næsta ár. „Aðalatriðið er að þessir átta flokkar sem eru í borgarstjórn átti sig á stöðunni þegar farið verður í fjárhagsáætlanagerð í haust. Þó að það sé gaman að hafa miklar tekjur er mikilvægt að átta sig á því að ef verið er að eyða um efni fram þá gengur það ekki upp.“