Tilkynnt var í gær að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefði skipað starfshóp undir forystu Björns Bjarnasonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sem ætlað væri að gera úttekt á kostum og göllum EES-samningsins í samræmi við beiðni Alþingis.
Björn fjallaði um skipunina á vefsíðu sinni í dag þar sem hann sagði meðal annars: „Ég var og er á móti ESB-aðild og tel að EES-leiðin sé best til óhjákvæmilegs samstarfs okkar við ESB. Að greina EES-stöðuna nú og draga ályktanir af þeirri vinnu er verðugt viðfangsefni.“
Þessi ummæli vöktu athygli Gunnars Braga Sveinssonar, þingflokksformanns Miðflokksins, sem birti ummæli Bjarnar á Facebook-síðu sinni og velti því fyrir sér hvort niðurstaða skýrslu starfshópsins lægi fyrir í ljósi orða formanns hans: „Er þá niðurstaðan komin?“