Heilsugæslan fái greitt fyrir bólusetningar

Bólusetningum barna á aldrinum 12 mánaða til 4 ára hefur …
Bólusetningum barna á aldrinum 12 mánaða til 4 ára hefur verið ábótavant.

Sótt­varn­ar­lækn­ir seg­ir mikla vinnu vera í gangi núna til að reyna að bæta inn­köll­un­ar­kerfi í tengsl­um við bólu­setn­ing­ar barna á heilsu­gæslu­stöðvum til að auka þátt­tök­una. Þá er einnig verið að koma á fót greiðslumód­eli þar sem hver heilsu­gæslu­stöð fær greitt fyr­ir sín verk, þar á meðal bólu­setn­ing­ar, til að hvetja til betri ár­ang­urs.

Hild­ur Björns­dótt­ir, borg­ar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokks­ins, hyggst leggja fram til­lögu í borg­ar­stjórn um að gera al­menn­ar bólu­setn­ing­ar að skil­yrði við inn­töku í leik­skóla borg­ar­inn­ar. Sótt­varn­ar­lækni þykir hins veg­ar ekki ráðlagt að fara í bar­áttu við for­eldra í tengsl­um við leik­skóla­pláss fyrr en búið er að gera úr­bæt­ur á heil­brigðis­kerf­inu þannig inn­köll­un í bólu­setn­ing­ar og skrán­ing þeirra virki sem skyldi.

„Það er ým­is­legt sem er í gangi sem verið er að breyta í sam­vinnu við heilsu­gæsl­una til að reyna að bæta þessa þátt­töku, sér­stak­lega í 12 mánaða, 18 mánaða og 4 ára bólu­setn­ing­un­um. Við erum aðallega óhress með þátt­tök­una þar,“ seg­ir Þórólf­ur Guðna­son sótt­varn­ar­lækn­ir í sam­tali við mbl.is. 91 pró­sent þátt­taka var í bólu­setn­ing­um við misl­ing­um, hettu­sótt og rauðum hund­um á síðasta ári, en hún er fram­kvæmd við 18 mánaða ald­ur. Æskilegt hlut­fall er hins veg­ar 95 pró­sent.

Kerfið flaggi óbólu­sett­um börn­um

Þórólf­ur seg­ir mik­il­væg­ast að ná til for­eldra þeirra barna sem mæta ekki í bólu­setn­ing­ar. „Ástæðan er þá ekk­ert endi­lega af því þeir ætla meðvitað ekki að koma, held­ur bara af því þetta gleym­ist. Það hef­ur verið bent á að það sé óeðli­legt að láta það al­farið í hend­ur for­eldra að panta tíma því það á til að gleym­ast. Frek­ar að skrá niður tíma, þó það sé langt fram í tím­ann, og ef fólk mæt­ir ekki þá hringja bjöll­ur. Fólk fengi þá áminn­ingu deg­in­um áður,“ út­skýr­ir hann.

„Við erum að reyna að búa til inn­köll­un­ar­kerfi í sjúkra­skrár­sögu sem myndi flagga þessu börn­um sem hafa ekki mætt. Þannið að heilsu­gæsl­an geti kallað fram lista með börn­um sem hafa ekki mætt og unnið mark­visst að því að ná til þessa fólks. Það er verið að koma þessu kerfi á. Það tek­ur tíma og kost­ar pen­ing, en sú vinna er á fullu.“

Þá bend­ir hann á að greiðslumód­el sem verið er að koma upp hjá heilsu­gæsl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, þar sem hver heilsu­gæsla fær borgað fyr­ir sín verk, geti nýst í þess­um til­gangi. „Eitt af því er þátt­taka í bólu­setn­ingu, þannig það er mik­ill hvati fyr­ir heilsu­gæsl­una á höfuðborg­ar­svæðinu að ná sem best­um ár­angri í þátt­tök­unni. Hug­mynd­in er að út­færa það á landsvísu.“

Van­skrán­ing­ar skekkja töl­fræðina 

Þórólf­ur seg­ir það líka ákveðið vanda­mál að íbúa­skrá úr þjóðskrá virðist ekki alltaf vera rétt. Það sé því erfitt að reiða sig á hana til að ná til fólks.

„Við höf­um rekið okk­ur á það að þegar við höf­um sent heilsu­gæsl­unni lista yfir börn sem eru illa bólu­sett eða óbólu­sett, þá seg­ir heilsu­gæsl­an að þetta fólk búi ekki á svæðinu og hafi aldrei sést. Samt er það skráð eins og það búi þar. Þetta er þá kannski fólk sem býr er­lend­is og er samt skráð með heim­ili á Íslandi og kem­ur inn eins og það sé óbólu­sett og lækk­ar þannig töl­una. Ég er að reyna að ná sam­bandi við þjóðskrá til að fara aðeins yfir þetta. Hvernig við get­um fengið sem áreiðan­leg­ast­ar upp­lýs­ing­ar um íbúa­skrána.“

Þá er alltaf ein­hver óvissa með ná­kvæmni í skrán­ingu bólu­setn­inga sem veld­ur því að töl­fræðin skekk­ist eitt­hvað. „Þess­ar töl­ur sem við erum að birta eru í raun lág­marks­töl­ur. Þátt­tak­an er alla­vega þessi en senni­lega er hún meiri. Við höf­um séð að það gleym­ist oft að skrá bólu­setn­ing­ar. Það er skráð á papp­ír en gleym­ist að skrá það inn í grunn­inn. Þá koma þeir krakk­ar fram sem óbólu­sett­ir. Þátt­tak­an er því ör­ugg­lega meiri en þær töl­ur sem við erum að birta. Við þurf­um bara að reyna að lag­færa það.“

Lít­ill en stund­um há­vær hóp­ur á móti bólu­setn­ing­um 

Þrátt fyr­ir að vanda­málið liggi að miklu leyti í inn­köll­un og skrán­ingu þá er hins veg­ar alltaf ein­hver hóp­ur for­eldra sem er hik­andi varðandi bólu­setn­ing­ar og jafn­vel al­farið á móti þeim. Þórólf­ur seg­ir mik­il­vægt að halda áfram að ræða við þetta fólk. „Við höld­um ár­lega fræðsluþing um bólu­setn­ing­ar með ung­barna­vernd­inni á heilsu­gæsl­unni sem sér um að bólu­setja. Við byrjuðum á þessu í fyrra og ætl­um að gera þetta aft­ur í haust þar sem við ætl­um meðal ann­ars að taka fyr­ir hvernig er hægt að ræða við for­eldra sem eru hik­andi hvað bólu­setn­ing­ar varðar. Þannig við erum að reyna að vinna frá þess­um enda eins vel og við get­um. Heil­brigðis­kerfið er að reyna að bæta sig.“

Þórólf­ur tel­ur að sá hóp­ur fólks sem er á móti því að bólu­setja börn­in sín sé ekki stór hér á landi. Skoðanakann­an­ir sýni það. „Ef við skoðum bólu­setn­ing­ar barna 3 og 5 mánaða þá er þátt­taka þar yfir 95 pró­sent, þannig við erum ekki að fást við stór­an hóp fólks sem er á móti. Hann virk­ar stund­um há­vær, þó það hafi ekki borið mikið á hon­um und­an­farið. Ég held því að við eig­um ekki að vera að eyða öll­um okk­ar kröft­um í þann í hóp. Við eig­um að reyna að bæta hitt og sjá hverju það skil­ar okk­ur og hvort við þurf­um að grípa til annarra ráða í fram­haldi af því,“ seg­ir Þórólf­ur og bæt­ir við:

„Það er því að mínu mati ekki ráðlagt að fara að berj­ast við for­eldra í tengsl­um við leik­skól­ann. Því bæði kost­ar það ofboðslega vinnu og er óljóst hvernig ætti að út­færa. Ég held að við eig­um ekki að fara út í það fyrr en hitt er komið í lag.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert