Mikilvægt að auka sjúkraflutninga með þyrlum

Hópurinn skoðaði meðal annars aukna aðkomu Landhelgisgæslunnar að sjúkraflugi.
Hópurinn skoðaði meðal annars aukna aðkomu Landhelgisgæslunnar að sjúkraflugi. mbl.is/Árni Sæberg

Mikilvægt er að auka eins og kostur er sjúkraflutninga með þyrlum, bæði vegna breytinga á heilbrigðisþjónustu stofnana, ekki síst í Vestmannaeyjum, en einnig vegna mikillar fjölgunar ferðamanna, á og utan alfaraleiða. Þá er mikilvægt að skilgreina sjúkraflug með þyrlum sem heilbrigðisþjónustu og því beri að manna áhafnir þeirra í samræmi við það. Einnig er mikilvægt að viðbragðstími sjúkraþyrlu sé ávallt sem stystur. Þetta eru niðurstöður starfshóps sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skipaði til að skoða möguleika á aukinni aðkomu þyrlna að sjúkraflugi.

Hópurinn skoðaði tvær leiðir í þessu skyni; annars vegar með aukinni aðkomu Landhelgisgæslu Íslands, sem m.a. myndi reka sérstaka sjúkraþyrlu, og hins vegar með rekstri sjúkraþyrlu sem rekin væri af öðrum en Landhelgisgæslunni.

Þrátt fyrir sameiginlegar áherslur voru fulltrúar í starfshópnum ekki á einu máli um leiðir að markmiðinu. Fimm af sjö fulltrúum hópsins leggja til að viðbragð Landhelgisgæslunnar verði styrkt með fleiri áhöfnum svo unnt verði að koma á staðarvöktum, þ.e. með áhöfn sem er í viðbragðsstöðu þar sem viðkomandi þyrla á bækistöð. Tveir fulltrúar starfshópsins leggja hins vegar til rekstur sérstakrar sjúkraþyrlu með sérhæfðum mannskap og að reksturinn verði ekki á hendi Landhelgisgæslunnar.

Starfshópurinn segir í skýrslu sinni að þörfin fyrir sjúkraflutninga með þyrlum muni fara vaxandi hér á landi. Helstu ástæðurnar fyrir því eru vaxandi sérhæfing í meðferð bráðra veikinda og slysa, minnkandi geta heilbrigðisstofnana í dreifbýli til að sinna bráðaþjónustu, almenn aukning sjúkraflutninga og ekki síst mikil fjölgun alvarlegra slysa. Til marks um aukningu sjúkraflutninga jókst umfang þeirra á árunum 2014-2017 um 37% þar sem mest var, þ.e. á Suðurlandi, Suðurnesjum og á Akureyri.

Ráðherra mun fela sérfræðingum ráðuneytisins að leggja mat á efni skýrslunnar og tillögurnar sem þar koma fram og ákveða næstu skref í framhaldi af því.

Starfshópinn skipuðu:

  • Elsa B. Friðfinnsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu, formaður
  • Hjörtur Kristjánsson, framkvæmdastjóri lækninga á Heilbrigðisstofnun Suðurlands
  • Ólafur Gunnarsson, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu
  • Sigurður Einar Sigurðsson, tilnefndur af Sjúkratryggingum Íslands
  • Inga Þórey Óskarsdóttir, tilnefnd af dómsmálaráðuneytinu
  • Sandra M. Sigurjónsdóttir, tilnefnd af Landhelgisgæslu Íslands
  • Viðar Magnússon, tilnefndur af fagráði sjúkraflutninga
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert