Sex láta uppsögnina standa

Linda stefnir að því að taka stöðuna með yfirljósmæðrum sviðsins …
Linda stefnir að því að taka stöðuna með yfirljósmæðrum sviðsins sem fyrst. Ljósmynd/Pexels

„Það er auðvitað áhyggjuefni fyrir okkur ef ljósmæður eru óánægðar,“ segir Linda Kristmundsdóttir, framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs Landspítalans. Gerðardómur skilaði niðurstöðu sinni síðastliðið fimmtudagskvöld og gætir talsverðrar óánægju meðal ljósmæðra vegna þess að hún felur ekki í sér leiðréttingu á launasetningu þeirra.

Í úrskurði gerðardóms var kveðið á um að meta eigi kandí­dats­gráðu ljós­mæðra til jafns við nám hjúkr­un­ar­fræðings með tveggja ára sér­nám, auk þess sem greiða á ljós­móður­nem­um laun. Hins vegar hafði gerðardóm­ur­ ekk­ert staðfast sem gaf hon­um til­efni til að úr­sk­urða um að kjör­um ljós­mæðra skyldi breytt vegna auk­inn­ar ábyrgðar og breytts inntaks starfs. 

Ljósmæðrafélag Íslands hefur sakað gerðardóm um að velta ábyrgðinni á aðra og að sögn Katrínar Sifjar Sigurgeirsdóttur, formanns samninganefndar ljósmæðra, er mikil óánægja og reiði meðal ljósmæðra vegna niðurstöðunnar. 

Linda stefnir að því að taka stöðuna með yfirljósmæðrum sviðsins sem fyrst. „Við erum stærsti vinnustaður ljósmæðra á landinu og það eina sem við getum gert er að horfa inn á við.“

Samkvæmt nýjustu upplýsingum sem Linda hefur hafa engar nýjar uppsagnir borist í kjölfar úrskurðar gerðardóms, en sex ljósmæður hafa enn ekki dregið uppsagnir sínar til baka eftir að samningur Ljósmæðrafélagsins við ríkið var undirritaður í lok júlí.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert