Viðurkennir eigin valdníðslu

„Ég get alveg notað þetta tækifæri til að viðurkenna að samkvæmt mínum eigin stöðlum þá studdi ég þarna við valdníðslu.“ Þetta er meðal þess sem segir í fésbókarfærslu Halldórs Auðar Svanssonar, fyrrverandi borgarfulltrúa Pírata, sem hann birti í kjölfar skoðanagreinar sem Viðskiptablaðið birti á vef sínum á föstudag.

Grein Viðskiptablaðsins ber yfirskriftina „Valdníðingur?“ og þar segir m.a.: „Hann nýtti valdastöðu sína sem borgarráðsmaður til að brjóta lög á Ástráði Haraldssyni þegar borgarlögmaður var ráðinn.“

Eins og fram kom í Morgunblaðinu hinn 13. júlí var úrskurðað gegn Reykjavíkurborg í ráðningarmáli Ástráðs Haraldssonar hæstaréttarlögmanns. Taldi kærunefnd jafnréttismála að brotin hefðu verið lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þar sem kærði þótti ekki hafa sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hefðu legið til grundvallar ráðningunni.

„Er ég valdníðingur?“

„Viðskiptablaðið leggur í raun upp þessa áskorun: „Er ég valdníðingur samkvæmt eigin stöðlum?“,“ segir Halldór í samtali við Morgunblaðið og segist vera tilbúinn að játa það. „Ef þeir vilja leggja þetta þannig upp. Þeir vitna ekki í hvernig er brugðist við svona úrskurðum. Það er mjög mikilvægt. Þar finnst mér þeir og aðrir hafa verið með mikla varnartilburði gagnvart skipun í Landsrétt,“ segir Halldór en eins og víða kom fram á sínum tíma voru tveimur umsækjendum, þ.ám. Ástráði Haraldssyni, dæmdar bætur vegna ólögmætrar málsmeðferðar við ráðningu dómara í Landsrétt.

Halldór bætir við að það geri illt verra að taka ekki á sig sinn skerf af sökinni og segir: „Það þýðir eiginlega ekki annað en að segja: „Þetta er aðili sem er til þess bær að skera úr um hvort rétt var gert eða ekki.“ Það gerir stöðuna ennþá verri að fara að þræta fyrir það. Frekar á að viðurkenna að þarna var ekki alveg rétt með farið og taka því.“

„Ég er mjög stolt af Halldóri að viðurkenna þetta. Það sýnir mikinn þroska og það sýnir að hann tekur ekki sína persónu fram yfir það að auka traust á kerfinu,“ sagði Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi. Hún sagðist ekki vera hrædd um að ummæli Halldórs vörpuðu skugga á Pírata og sagði: „Við höfum einmitt talað um að það er oft álitið veikleikamerki að viðurkenna mistök sín. Ég lít á það sem styrkleikamerki því bara með því að viðurkenna mistök þín geturðu haldið áfram og betrumbætt ferlin.

Allir gera mistök, líka stjórnmálafólk.“

Ekki náðist í Dag B. Eggertsson borgarstjóra við gerð fréttarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert