Búið er að loka af yfirbyggt svæði á lóð leikskólans Fögrubrekku í Kópavogi, þar sem ungmenni hanga gjarnan utan opnunartíma leikskólans. Í gær fann fimm ára gamall drengur amfetamín á lóð leikskólans og lagði sér til munns.
„Eftir þetta atvik í gær var manni bara virkilega brugðið,“ segir Edda Valsdóttir, leikskólastjóri í Fögrubrekku, í samtali við mbl.is.
Hún hafði tafarlaust samband við yfirmann fasteigna hjá Kópavogsbæ í gær og segir að nú sé búið að ákveða að koma í veg fyrir að hægt sé að sitja undir yfirbyggðu skyggninu, sem er við lítið hús á skólalóðinni sem notað er undir tónlistarkennslu barnanna.
„Það er náttúrlega rosalega notalegt að sitja þarna undir, maður myndi hugsa það sjálfur ef maður væri unglingur og við vorum öll unglingar einhvern tímann, en þetta er enginn griðastaður,“ segir Edda og bætir því við að ef börn eigi að vera örugg einhvers staðar sé það á leikskóla.
„Hérna eiga þau að vera örugg. Við grannskoðum garðinn á hverjum einasta morgni, en þessi litlu börn eru litlir rannsakendur og þau eru alls staðar, þau eru að tína steina og orma og lauf og það er ekki nema eðlilegt að þau finni svona í garðinum ef okkur yfirsést þetta,“ segir Edda.
Hún segir að aldrei hafi fundist eiturlyf á leikskólalóðinni áður er leikskólastarfsmenn yfirfari lóðina að morgni, en þó hafa fundist þar áhöld til neyslu kannabisefna, svokallaðar beyglur, auk fjölda sígarettustubba.
„Við höfum séð svona flöskur sem eru beygðar, svona pípur eða eitthvað, en við höfum aldrei fundið svona, aldrei nokkurn tíma. Þetta hefur bara dottið upp úr vasa,“ segir Edda, sem segir amfetamínpokann sem var á lóðinni hafa verið pínulítinn, með ef til vill eins og hálfri matskeið af hvítu efni í.
Nú ætlar Edda að láta festa niður trébekkina sem eru á leikskólalóðinni, svo ekki sé hægt að færa þá til. Það er næst á dagskrá, nú þegar búið er að setja upp grindur við litla húsið.
Edda segir alla hafa brugðist rétt við því atviki sem kom upp í gær og hrósar starfsmönnum leikskólans, aðstoðarskólastjóra og drengnum sjálfum fyrir góð viðbrögð. Hún segist þakklát fyrir að ekki fór ver.
„Þetta vil ég ekki að gerist aftur hérna í leikskólanum mínum, það get ég alveg sagt þér,“ segir leikskólastjórinn, sem þakkar Kópavogsbæ fyrir snör viðbrögð við uppsetningu grinda í skotinu.