Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir það fyrir neðan allar hellur að kjörnir fulltrúar skuli hafa almenna starfsmenn borgarinnar að háði og spotti með myndbirtingum á Facebook. Vísar hann þar til myndar sem Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, birti á facebooksíðu sinni í sumar af starfsmanni sem var að vökva plöntu í rigningu. Dagur segist vilja hvetja fulltrúa til að ræða um fjármál borgarinnar og pólitíska forgangsröðun, jafnvel á krítískan hátt, en ekki draga einstaka starfsmenn og starfslýsingar þeirra inn í umræðuna.
„Mér finnst ekki sæmandi að beina spjótum úr stólum kjörinna fulltrúa að almennum starfsmönnum þannig að fólk geti skilið það svo að það sé verið að gera lítið úr því. Það getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér, á erfitt með það í opinberri umræðu og á þeim vettvangi sem við störfum,“ sagði Dagur á fundi borgarstjórnar í dag. Hann nefndi einnig að hæðst hefði verið að starfsmönnum sem þurrkuðu af borðum eftir fundi og sæju um kaffiveitingar.
Myndbirtingu af starfsmanninum að vökva tók hann sem dæmi þegar hann var spurður að því á fundinum í hvað hann væri að vísa þegar hann sagði á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun að gagnrýni minnihluta borgarstjórnar í sumar hefði fyrst og fremst snúist um smávægileg formsatriði.
„Ég ætla að nefna dæmið sem fór mest fyrir brjóstið á mér en það hitti þannig á að ég var í sumarleyfi og gat ekki gert athugasemd. Það var þegar tveir oddvitar minnihlutans; Eyþór Laxdal Arnalds borgarfulltrúi og borgarfulltrúi Vigdís Hauksdóttir, birtu mynd af almennum verkamanni hjá Reykjavíkurborg sem var að gróðursetja plöntu. Hann var að gróðursetja plöntu í nýjum potti úti við tollhúsið og hann var að gróðursetja hana í rigningu. Þeim var skemmt af því hann var að vökva plöntuna.“
Við umrædda mynd skrifaði Vigdís: „Það virðast vera miklir snillingar sem stjórna Reykjavíkurborg.“ Ýjaði hún þar að því að þetta væri ekki mjög þarft verkefni sem starfsmaðurinn var að sinna. Ekki er hins vegar allt sem sýnist og útskýrði Dagur það fyrir borgarfulltrúum hvernig gróðursetja ætti plöntur.
„Það er nefnilega ekki nóg að láta rigna á plöntur þegar verið er að gróðursetja þær, þá snertir maður bara yfirborðið eins og fólk gerir stundum, bara af öðru tilefni, heldur þarf vökvun og bleytan að ná alveg niður að rótum og gegnbleyta þetta. Þannig eru sannarlega leiðbeiningar garðyrkjudeildar Reykjavíkurborgar.“
Dagur sagði oddvita minnihluta í borgarstjórn greinilega hafa þótt það sér sæmandi að hafa almennan starfsmann Reykjavíkurborgar að háði og spotti með því að birta mynd af honum á Facebook við þessar aðstæður.
„Mér finnst þetta algjörlega fyrir neðan allar hellur. Ekki vegna þess að þetta lýsir skorti á innsýn í garðyrkjustörf af þeirra hálfu, heldur lýsir þetta viðhorfi til almenns starfsfólks, verkafólks sem er að vinna hjá okkur, sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér í opinberri umræðu. Ég ætla bara að biðja um að þetta verði í síðasta sinn sem þetta er gert og óska eftir því að oddvitar beini frekar spjótum sínum að mér eða öðrum kjörnum fulltrúum en ekki almennu starfsfólki, takk fyrir.“
Vigdís steig fljótlega í pontu og svaraði fyrir myndbirtinguna. „Ég get róað borgarstjóra með því að þetta var mynd af vökvandi borgarstarfsmanni, vökvandi blómaker í rigningu. Mér fannst myndin afar fyndin, mér var send hún í pósti. Það má nú leyfa sér smá grín af og til, eða hvað? Það þarf ekki allt að vera grátt og ómögulegt,“ sagði Vigdís meðal annars.
Hún sagðist þó hafa verið í fjölmiðlaviðtali þegar Dagur ræddi um myndbirtinguna og því hefði hún ekki heyrt það sem hann sagði. Það væri þó greinilega vel fylgst með facebooksíðunni hennar og ekki fyrsta skipti sem eitthvað væri tekið þar upp.