„Ekki lýðskrum heldur okkar skylda“

Eyþór segir borgarstjóra hafa sett tóninn fyrir kjörtímabilið með orðum …
Eyþór segir borgarstjóra hafa sett tóninn fyrir kjörtímabilið með orðum sínum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eyþór Laxdal Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir Dag B. Eggertsson borgarstjóra hafa sett tóninn fyrir kjörtímabilið með orðum sem hann lét falla á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Dagur ræddi um gagnrýni minnihluta borgarstjórnar sem fór hátt í sumar og sagði hana fyrst og fremst hafa snúist um smávægileg formsatriði.

„Þessi umræða eða upphlaup eða hávaði eða órói eða hvað við viljum kalla það í sumar, það hefur fyrst og fremst snúist um einhver formsatriði og svona týpískar lýðskrumslegar upphrópanir að mínu mati og minnir svolítið á það þegar Vigdís Hauksdóttir fór fyrsta daginn sinn á þingi og sagðist sakna þess tíma þegar starfsfólk Alþingis ávarpaði ekki þingmenn. Þetta er hofmóður sem ég kann ekki við,“ sagði Dagur í morgun.

Eyþór gagnrýndi þessi orð borgarstjóra á fyrsta fundi borgarstjórnar eftir sumarfrí, sem nú stendur yfir, á sama tíma og hann gagnrýndi meirihlutasáttmálann sem Dagur hóf fundinn á því að kynna.

Dagur sagði gagnrýni minnihlutans hafa snúist um smávægileg formsatriði.
Dagur sagði gagnrýni minnihlutans hafa snúist um smávægileg formsatriði. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Í útvarpinu í morgun setti borgarstjóri tóninn fyrir fundinn og starfið í vetur. Fyrir kjörtímabilið. Þar talaði hann um upphlaup eða hávaða eða óróa okkar sem höfum bent á þennan brýna vanda,“ sagði hann og tiltók þar sérstaklega húsnæðisvandann í borginni.

„Hann segir að umræðan snúist um „einhver formsatriði og svona týpískar lýðskrumslegar upphrópanir“. Þá vaknar spurningin: Er staða húsnæðislausra formsatriði? Eru tillögur um úrræði fyrir húsnæðislausa lýðskrumslegar upphrópanir? Eða er óþarfi að ræða um málefni húsnæðislausra, er það bara upphlaup?“ spurði Eyþór á sama tíma og hann gagnrýndi áherslur meirihlutans í húsnæðismálum.

„Tillögur um að skipuleggja húsnæði á hagstæðum svæðum er málefnalegt innlegg sem var lagt fyrir fyrsta fund borgarstjórnar. Þá vaknar spurningin: Hvort flokkast slík tillaga, um þúsundir íbúða á hagstæðum og skynsamlegum svæðum, undir formsatriði eða svona týpsískar lýðskrumslegar upphrópanir? Tillögur okkar hafa verið lagðar fram því þær er ekki að finna í þessum meirihlutasáttmála. Við lögðum fram tillögur á fyrsta fundi borgarstjórnar og höfum lagt fram tillögur á fundum fagnefnda. Það er ekki lýðskrum heldur okkar skylda og okkar verkefni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert