Telur ráðherra misskilja málið

Félag atvinnurekenda segir að svo virðist sem Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, misskilji eðli dómsmáls sem fimm innflutningsfyrirtæki hafa höfðað gegn íslenska ríkinu vegna ofgreiddra skatta í formi tolla á landbúnaðarvörur. Kristján sagði í samtali við mbl.is að hann teldi að þegar hefði verið komið til móts við umkvörtunarefni fyrirtækjanna í kjölfar fyrri dóma vegna innflutnings á matvöru.

„Misskilnings virðist gæta hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um eðli málsins, sem fimm innflutningsfyrirtæki hafa höfðað gegn íslenska ríkinu. Hér er ekki um að ræða mál sem snýr að töku útboðsgjalds fyrir tollkvóta eins og fyrri málsóknir sem ráðherra vísar til, heldur er hér látið reyna á alla skattheimtu ríkisins í formi tolla á búvörur. Þessi sami misskilningur kom fram í máli ráðherrans í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi,“ segir á facebooksíðu félagsins í dag.

Kristján sagði í samtali við mbl.is að íslenska ríkið hefði áður verið dæmt til þess að endurgreiða skatta vegna innflutnings á matvörum. Brugðist hefði verið við í kjölfar þeirra dóma með lagabreytingum sem hefðu haft það að markmiði að skýra nákvæmlega hlutverk ráðherra í þessu regluverki, en málsókn fyrirtækjanna snýr að því að heimild ráðherra til þess að lækka eða fella niður tolla samrýmist ekki lagaákvæðum um að skattar skuli aðeins ákvarðaðir með lögum líkt og kveðið er á um í stjórnarskránni.

„Við þessa vinnu leitaði ráðuneytið til lögmanna með sérþekkingu á þessum málaflokki auk þess að taka tillit til tilmæla frá Umboðsmanni Alþingis. Þetta var fyrir mína tíð í ráðuneytinu en ég fæ þær upplýsingar að þessar breytingar hafi verið fullnægjandi og því brjóti núgildandi regluverk ekki gegn stjórnarskrá. Það er þó dómstóla að skera endanlega úr um það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert