Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Ni Yuefeng, tollamálaráðherra Kína, undirrituðu nýja bókun við fríverslunarsamning Íslands og Kína um heilbrigðisvottun á íslensku lambakjöti síðdegis í gær, en utanríkisráðherra er í fjögurra daga heimsókn í Kína.
„Við erum búin að vera að bíða svolítið eftir þessu,“ segir Unnsteinn Snorri Snorrason, framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda, í samtali við Morgunblaðið. „Kína er stærsti innflytjandi á lambakjöti þannig að þetta er gífurlega stór markaður sem opnast þarna,“ segir hann.
Að sögn Unnsteins hafa íslenskir sláturleyfishafar verið að horfa til markaðarins í Kína með útflutning á lambakjöti í huga og ekki síður sem markað fyrir hliðarafurðir svo sem innmat, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.