Sérstök áhersla á íslensku lopapeysuna

Margir koma víða að til að sjá og kaupa íslenska …
Margir koma víða að til að sjá og kaupa íslenska ull og hönnun á prjónahátíðinni í Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Aðsend

„Ísland er í fararbroddi og það er litið til Íslands þegar kemur að prjónamenningu,“ segir Ásta Stefánsdóttir, verkefnastjóri hjá Norðurbryggju, menningarhúsi Íslands, Grænlands og Færeyja í Kaupmannahöfn.

Um helgina verður prjónahátíðin Pakhusstrik haldin á Norðurbryggju. Þangað flykkist prjónaáhugafólk í Danmörku til að sjá meðal annars vörur eftir íslenska prjónahönnuði og garnframleiðendur.

Hátíðin er nú haldin í fimmta sinn og hefur notið mikilla vinsælda meðal prjónaáhugafólks í Danmörku. Að þessu sinni verður lögð sérstök áhersla á íslensku lopapeysuna. „Þar sem Ísland fagnar 100 ára fullveldisafmæli sínu á þessu ári vildum við leggja áherslu á þetta íslenska fyrirbæri,“ segir Ásta.

Ístex, Móakot og Prjónafjör eru meðal þátttakenda frá Íslandi sem sýna vörur sínar. Ásdís Jóelsdóttir, lektor í textílmennt við Háskóla Íslands, heldur fyrirlestur undir yfirskriftinni Íslenska lopapeysan, uppruni, saga og hönnun. Auður Björt Skúladóttir mun kenna Dönum að prjóna íslenska lopapeysu og svo munu tveir íslenskir sauðfjárbændur kenna áhugasömum að spinna band úr íslensku ullinni. Það verður sem sagt bæði sýnt og selt á hátíðinni.“

Færeyingar og Grænlendingar koma einnig við sögu á hátíðinni, en hin sérstaka ull sem fæst frá grænlensku sauðnautunum er vinsæl í Danmörku. „Þessi lönd eiga auðvitað hlut í húsinu svo okkur fannst vel við hæfi að hafa þau með og skoða menningu þeirra. Ull og prjón skipa svo stóran sess í menningarheimi þessara landa, sérstaklega Íslands og Danmerkur.“

Sjá viðtal við Ástu um prjónahátíðina í heild á baksíðu Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert