Varðskipið Þór, sem var við gæslustörf á Austfjarðamiðum í vikunni, notaði tækifæri og skaust inn til Færeyja til að taka olíu.
Alls tók Þór um 600 þúsund lítra af olíu, en tankar skipsins geta tekið allt að 1.300 þúsund lítra. Þór er kominn á Íslandsmið á nýjan leik. Unnu skipverjar á Þór að því í gær að skipta um dufl við Vestmannaeyjar.
Fram hefur komið í fréttum að Landhelgisgæslan þarf ekki að greiða gjöld og skatta af olíunni í Færeyjum. Því notar Gæslan tækifæri sem gefast til að skjótast þangað til olíukaupa. Hafa varðskipin farið þangað margsinnis á undanförnum árum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.