Væri „gríðarlegt tjón“ að ganga úr EES

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segir að eftirspurn sé eftir nýrri peningastefnu …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segir að eftirspurn sé eftir nýrri peningastefnu á Íslandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það sem við finnum er að það er ákveðin óþreyja hjá ákveðnum hópi í samfélaginu sem finnst að það þurfi að ræða meðal annars krónuna og peningamálastefnuna,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í samtali við blaðamann mbl.is. Viðreisn kynnti áherslur sínar fyrir komandi þingvetur á blaðamannafundi í morgun.

Þorgerður Katrín segir að Íslendingar, sem ferðist nú meira en áður, spyrji sjálfa sig af hverju Ísland þurfi að vera svona dýrt. „Við erum að segja: það þarf ekki að vera það,“ segir Þorgerður Katrín.

„Við stjórnmálamennirnir getum gert þetta sjálf með ákveðnum ákvörðunum, með því til dæmis að breyta um peningamálastefnu, sem ég segi að sé eftirspurn eftir. Fólk sér þennan vaxtakostnað og matarkostnað, þetta eru bara sláandi tölur sem tala sínu máli,“ segir Þorgerður Katrín og vísar þá til samanburðar á þessum útgjaldaliðum við aðrar Norðurlandaþjóðir.

„Síðan er líka hitt að við í stjórnmálum getum afnumið samkeppnishindranir. Samkeppnishindranir kosta heimilin og það verðum við að fara að horfast í augu við,“ segir Þorgerður Katrín og bætir við að Viðreisn hyggist halda ríkisstjórninni við efnið í þessum málum í vetur.

Þungavigt í Sjálfstæðisflokki tali gegn EES-samstarfinu

Viðreisn er Evrópusinnaður stjórnmálaflokkur en það eru flokkarnir þrír sem eru í ríkisstjórn ekki. Viðreisn vill taka upp evru hér á landi og hyggst beita sér fyrir nýrri peningamálastefnu á þingi í vetur.

Frá blaðamannafundi Viðreisnar í morgun.
Frá blaðamannafundi Viðreisnar í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Blaðamaður spurði Þorgerði Katrínu hvort það væri ekki langsótt að ætla sér það, þegar ríkisstjórnarflokkarnir væru fjarri því að hugsa á þeim nótum og helsta umræðan um Evrópusamstarf hér á landi um þessar mundir virtist snúast um hvort ef til vill ætti að hafna hinum svokallaða þriðja orkupakka Evrópusambandsins og jafnvel ganga út úr EES-samstarfinu í framhaldinu, en starfshópur á vegum utanríkisráðherra vinnur nú skýrslu um kosti og galla EES-samstarfsins fyrir Ísland.

„Það eru merkilegt tíðindi að þeir sem meðal annars hafa mikil áhrif innan Sjálfstæðisflokksins tala fyrir því, leynt og ljóst, að Ísland fari einfaldlega út úr EES-samstarfinu. Það yrði gríðarlegt tjón og öðruvísi mér áður brá ef sá flokkur ætlar að fara að tala fyrir því að Ísland segi sig úr EES-samstarfinu. Það eru ekki allir sem gera það, en það er þungavigt innan flokksins sem mér finnst vera að fá mjög mikið rými til þess að fara í þessa átt og ég vil einfaldlega vara við því,“ segir Þorgerður Katrín.

Hún segir að ef til vill megi gagnrýna stjórnmálamenn fyrir að tala ekki nóg um það hvaða ábata Íslendingar hafi haft af EES-samstarfinu. 

„Við höfum meðal annars fengið hærra orkuverð í gegnum EES-samstarfið og því eru álfyrirtækin og aðrir að greiða hærra verð en áður og við erum með aðhald gagnvart símafyrirtækjunum, sem voru tiltölulega aðhaldslaus um tíma, en Evrópusambandið tók á því, mjög neytendamiðað,“ segir Þorgerður Katrín.

Hún segir að framfarir á ýmsum sviðum, sem við í dag teljum eðlilegar, hefðu ekki komið til framkvæmda hér á landi nema miklu seinna ef ekki væri fyrir EES-samninginn.

„Sem betur fer hefur forystan [Sjálfstæðisflokksins] ekki verið að tala á þessum nótum og ég vona að hún verði ekki knúin til að gera það. Þótt hún hafi nú áður skipt um skoðun forystan vona ég að hún láti ekki leiða sig inn á þennan veg að fara að ræða það að við einfaldlega segjum okkur frá EES-samstarfinu, því það yrði stórfellt tjón fyrir íslenskt samfélag,“ segir Þorgerður Katrín, sem segir popúlisma ríða húsum í þessari umræðu og línurnar séu að verða sífellt skarpari í íslenskum stjórnmálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert