Viðreisn vill ódýrara Ísland

Þorsteinn Víglundsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fóru yfir helstu áherslumál …
Þorsteinn Víglundsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fóru yfir helstu áherslumál Viðreisnar á blaðamannafundi í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðreisn fer inn í þingveturinn undir slagorðinu „Ódýrara Ísland“, en á blaðamannafundi flokksins í morgun fóru þau Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þorsteinn Víglundsson yfir þau mál sem flokkurinn ætlar að leggja áherslu á í vetur.

Í upphafi fundarins var fjölda skjáskota úr vefmiðlum varpað upp á skjá í húsakynnum Viðreisnar, með fréttum sem fjalla um hátt verðlag hér á landi og þverrandi samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Þorgerður Katrín sagði að þrátt fyrir alla þessa umfjöllun talaði enginn um rót vandans, íslensku krónuna, en Viðreisn hyggst leggja fram nýja peningamálastefnu Íslands á komandi þingi.

Þorsteinn bar saman bæði matvöruverð og vaxtakostnað Íslendinga við nágrannalöndin og sagði að sá samanburður kæmi illa út. Hann sagði íslenska fjögurra manna fjölskyldu eyða 80 þúsund krónum meira í mat á mánuði en fjölskylda sömu stærðar í Danmörku og að vextir væru hér tvöfalt til þrefalt hærri en í nágrannalöndunum.

Þorsteinn sagði að íslenskar fjölskyldur væru að greiða allt of …
Þorsteinn sagði að íslenskar fjölskyldur væru að greiða allt of háa vexti og að það væri fylgifiskur íslensku krónunnar. Graf/Viðreisn

Þá fjallaði Þorsteinn um það sem hann kallaði „eyðslustefnu stjórnvalda“ og sagði að á góðæristímum hefðu Íslendingar aukið ríkisútgjöld langt umfram getu og það sama væri upp á teningnum núna. Ekki yrði hægt að standa undir þessu til lengri tíma og stjórnmálamenn virtust hafa einsett sér að læra ekkert af síðasta hruni, né síðustu áratugum, þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir hagfræðinga um skaðsemi þessarar stefnu.

Auk þess að beita sér fyrir nýrri peningamálastefnu ætlar Viðreisn að leggja til að samkeppnisundanþágur í landbúnaði verði afnumdar og í máli Þorgerðar Katrínar kom fram að flokkurinn hygðist leggja til að verðlagsnefnd búvara yrði lögð niður og styrkjakerfi landbúnaðarins gert gagnsærra.

Þá mun flokkurinn krefjast þess að ríkið fái sanngjarnt gjald fyrir notkun auðlinda og í því samhengi nefndi Þorgerður Katrín sérstaklega auðlindir hafsins. Hún sagði að það væri ekki svo að auðlindagjöld væru að sliga allar litlar útgerðir, en Viðreisn vildi þó leggja fram tillögur til þess að koma til móts við minni útgerðarfyrirtæki.

Viðreisn ætlar einnig að leggja fram frumvörp um að póstþjónusta og leigubílaþjónusta verði gerð frjáls og þá vill flokkurinn að fjölbreytt rekstrarform í heilbrigðisþjónustu fái að þrífast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert