Íslensk fyrirmynd í samstarfi flokka

Katrín Jakobsdóttir á Bessastöðum.
Katrín Jakobsdóttir á Bessastöðum. mbl.is/Eggert

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir niðurstöðu kosninganna í Svíþjóð ekki hafa komið sér á óvart. „Þetta sýnir að landslagið er að breytast. Þarna fá Svíþjóðardemókratar, sem eru mjög öfgakenndur flokkur, sínar bestu niðurstöður frá upphafi,“ segir hún.

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, talaði eftir kosningarnar um að blokkakerfið væri í raun og veru dautt og að mikilvægt væri að þeir sem hefðu sameiginlega sýn á tiltekin gildi frelsis og lýðræðis ynnu saman.

Katrín tekur undir þetta og segir ljóst að flokkar til hægri og vinstri þurfi að vinna saman og finna málamiðlanir og grundvöll í samstarfi sem endurspegli ákveðna sýn.

Samsett mynd af Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, Ulf Kristerssson, leiðtoga …
Samsett mynd af Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, Ulf Kristerssson, leiðtoga Moderaterna, og Jimmie Åkesson, leiðtoga Svíþjóðardemókrata. AFP

Íslenska stjórnarsamstarfið vakið mikla athygli 

Spurð hvort staða mála í Svíþjóð minni ekki á stöðuna sem hefur verið hérlendis undanfarin ár varðandi samstarf frá hægri til vinstri nefnir hún að í stjórnarmyndunarviðræðunum hérlendis 2016 hafi margar tilraunir verið gerðar til að ná saman í breyttu landslagi með fleiri flokkum. „Þetta sýnir að flokkar þurfa að hugsa út fyrir rammann þegar kemur að samstarfi eftir kosningar eins og við gerðum,“ segir hún og á við ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar sem var mynduð í lok síðasta árs.

Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson í stjórnarmyndunarviðræðum …
Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson í stjórnarmyndunarviðræðum í lok síðasta árs. mbl.is/Hari

Katrín bendir á að núverandi stjórnarsamstarf hafi vakið mikla athygli erlendis, þar á meðal á hinum löndunum á Norðurlöndunum, meðal annars vegna þeirrar þróunar sem hefur verið víða í Evrópu.

„Við höfum verið spurð töluvert út í hvernig þetta gangi því margir sjá þetta sem tækifæri til að vinna gegn auknum klofningi í samfélögum þar sem stjórnmálaflokkar skiptast í tvö ólík lið sem tala ekki saman. Margir hafa séð þetta samstarf hér á landi sem aðra leið.“

Ýmislegt hefur verið ritað í sænsku blöðunum um kosningarnar í …
Ýmislegt hefur verið ritað í sænsku blöðunum um kosningarnar í gær. AFP

Einföld svör við flóknum viðfangsefnum 

Svíþjóðardemókratar hlutu tæp 18% atkvæða í kosningunum í gær en ólíklegt þykir samt að flokkurinn komist í ríkisstjórn vegna þess hversu umdeildur hann er vegna stefnu sinnar í innflytjendamálum.

Innt eftir því hvort hún hafi almennt séð áhyggjur af þróun mála í stjórnmálunum í ljósi aukins fylgis flokksins, segist Katrín að sjálfsögðu hafa áhyggjur af flokkum með slík gildi.

„Þeir hafa beinlínis verið tengdir við nýnasistahreyfinguna og ná þessum mikla árangri með því að vera alltaf með einföld svör við flóknum viðfangsefnum sem kalla á flóknari svör, sem kannski að einhverju leyti skýrir þetta fylgi. Um leið held ég að þetta sýni nauðsyn þess að flokkar séu reiðubúnir til að hugsa út fyrir rammann þegar kemur að samstarfi við aðra flokka.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert