Heildarútgjöld vegna rekstrarkostnaðar ríkisstjórnarinnar eru áætluð tæplega 636 milljónir króna á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem felur í sér hækkun frá gildandi fjárlögum um 153 milljónir króna vegna fjölgunar aðstoðarmanna ráðherra að frátöldum launa- og verðlagsbreytingum sem nema 21,6 milljónum króna.
Fram kemur í frumvarpinu að aðstoðarmönnum ráðherra hafi fjölgað frá setningu laga um Stjórnarráð Íslands árið 2011 þar sem kveðið er á um að hverjum ráðherra sé heimilt að ráða til sín tvo aðstoðarmenn. Að auki er heimilt að ráða þrjá aðstoðarmenn samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar.
„Tilgangur breytinganna á sínum tíma var að styrkja pólitískt stefnumótunarhlutverk ráðherra með því að auka heimildir þeirra til að ráða sér við hlið pólitíska ráðgjafa til aðstoðar. Fjárveiting fylgdi ekki lagarammanum að fullu en hingað til hefur auknum kostnaði vegna aðstoðarmanna verið mætt með fjárveitingum á fjáraukalögum þegar þess hefur verið þörf,“ segir ennfremur í frumvarpinu.
Hámarksfjöldi aðstoðarmanna lögum samkvæmt og miðað við núverandi fjölda ráðherra í ríkisstjórn sé 25 „og eru heimildir laganna til ráðningar aðstoðarmanna ráðherra nú nánast fullnýttar“.