Setning 149. þings Alþingis verður í dag og hefst þingsetningarathöfnin kl. 13.30 með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir starfsmenn Alþingis hafa haft mikið að gera að undanförnu við undirbúning þingsetningarinnar.
„Við erum vissulega búin að vera önnum kafin að undanförnu. Það er búið að þrífa allt alþingishúsið, dytta að ýmsu og svo er auðvitað alltaf heilmikill undirbúningur við það að búa sig undir þessa athöfn á morgun,“ segir Helgi um þingundirbúninginn í Morgunblaðinu í dag.
Helgi segir að starfsmenn hafi í undirbúningnum hist reglulega og yfirfarið langa minnislista sína um hvað þyrfti að gera. „Auk þessa höldum við alltaf fund með öllum þeim sem að þessu koma, þ.e. lögreglunni, kirkjunni og ráðuneytum. T.d. þarf að undirbúa gestamóttökuna mjög vel, en hér eru að jafnaði allir sendiherrar erlendra ríkja á Íslandi gestir við þingsetninguna, fulltrúar Hæstaréttar Íslands, ráðuneytisstjórar og fyrrverandi forsetar. Þannig að þetta er heilmikill undirbúningur, auk þess sem við erum samhliða þessu að undirbúa og skipuleggja þinghaldið fyrstu vikurnar,“ sagði Helgi og bætti við: „En nú er allt klárt.“