Hundruðum milljóna meira vegna EES

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fram kemur í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar að til standi að veita 162 milljónir króna aukalega til sendiráðs Íslands í Brussel á næsta ári til þess að styrkja starfsemi þess og fjölga fulltrúum fagráðuneyta þar vegna aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES).

Markmiðið sé að tryggja virkari þátttöku Íslands í mótun EES-löggjafar með því að byggja upp og viðhalda þekkingu á EES-samningnum innan stjórnsýslunnar. Bæta eigi frammistöðu Íslands við upptöku og innleiðingu EES-gerða og auka samstarf við önnur EFTA/EES-ríki á fyrri stigum.

Ennfremur segir í fjárlagafrumvarpinu að undirbúningur sé þegar hafinn að því að efla sendiráðið í Brussel og fjölga fulltrúum fagráðuneyta innan þess. Sömuleiðis að verkefnum um styrkingu á samstarfi ráðuneyta á sviði EES-mála sé ætlað að vera tímabundin fram til ársins 2020.

Þá kemur fram að framlög Íslands til uppbyggingarsjóðs Evrópska efnahagssvæðisins vegna aðildar Íslands að EES-samningnum verði um 566 milljónir króna á næsta ári samanborið við 276,5 milljónir miðað við gildandi fjárlagafrumvarp. Ennfremur að framlagið verði samkvæmt áætlun sjóðsins tæplega 899 milljónir árið 2020 og einn miljarður og 26 milljónir árið 2021.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert