Ríkisstjórn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks leggur til að persónuafsláttur hækki um 1 prósentustig umfram lögbundna 12 mánaða hækkun vísitölu neysluverðs á árinu 2019. Þetta kemur fram í kynningu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á fjárlögum fyrir árið 2019. Persónuafsláttur er þannig hækkaður um 4%.
Jafnframt er gert ráð fyrir því að hækkun þrepamarka efra skattþreps verði miðuð við vísitölu neysluverðs.
Samhliða hækkun persónuafsláttar og tengingu þrepamarka er einnig lagt til að barnabætur verði hækkaðar verulega, eða sem svara til 1,6 milljörðum króna frá fyrri fjárlögum, sem er 16% hækkun á barnabótum milli ára. Vaxtabætur hækka einnig, um sem nemur 13% frá áætlaðri útkomu 2018.
Í tengslum við framlagningu fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2019 verður einnig lagt til að tryggingagjaldið lækki í ársbyrjun 2019 um 0,25% og aftur um 0,25% í ársbyrjun 2020, sem er í samræmi við fyrstu fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.
Þetta er um 8 milljarða lækkun tryggingagjaldsins.