Gjöld á áfengi, tóbak og eldsneyti hækka

Hækkun vörugjalda á eldsneyti þýðir rúmlega þriggja krónu hækkun á …
Hækkun vörugjalda á eldsneyti þýðir rúmlega þriggja krónu hækkun á hverjum lítra af bensíni og olíu, verði hækkunum velt út í verðlagið. mbl.is/Hari

Svokölluð krónutölugjöld, álagðir skattar ríkisins sem mældir eru í krónum fremur en prósentum, munu hækka um 2,5% í upphafi næsta árs, í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Á meðal þessara gjalda eru vörugjöld á áfengi, tóbak og eldsneyti, auk útvarpsgjalds og gjalda í Framkvæmdasjóð aldraðra.

Gert er ráð fyrir að hækkun þessara gjalda skili ríkinu alls 1,8 milljörðum króna í auknar tekjur á næsta ári.

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að þessar breytingar á vörugjöldum eldsneytis muni leiða til þess að bensínverð á lítra hækki um 3,3 kr. og olíuverð um 3,1 kr., verði vörugjöldunum, sem lögð eru á söluaðila, velt beint út í verðlagið.

Þess er vænst er að á næsta ári hafi ríkið samanlagt 31,2 milljarða króna tekjur af eldsneytisgjöldum, þar af 13,2 milljarða af bensíngjaldi og 12,1 milljarða króna af olíugjaldi.

Þá eru áætlaðar tekjur ríkissjóðs vegna vörugjalda á áfengi og tóbaki 25,6 milljarðar króna, 19,8 milljarðar af áfengisgjaldi og 5,9 milljarðar af tóbaksgjaldi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert