„Það er alveg ljóst að rekstur fjölmiðla er mjög þungur og samkeppnisstaðan skökk,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, á blaðamannafundi í Veröld – húsi Vigdísar í dag. Þar kynnti hún stuðning ríkisins við einkarekna fjölmiðla, sem áætlað er að verði um 400 milljónir á ári frá og með næsta ári og fleiri aðgerðir sem ríkisstjórnin ætlar að grípa til með það að markmiði að efla íslenska tungu.
Stuðningur ríkisins við einkarekna fjölmiðla mun meðal annars verða í formi 20-25% endurgreiðslu á ritstjórnarkostnaði, auk þess sem dregið verður úr umsvifum Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði um 560 milljónir, samkvæmt því sem kom fram í kynningu Lilju, en frumvarpið er enn í smíðum.
Lilja segir í samtali við blaðamann mbl.is að endurgreiðslan sé að norrænni fyrirmynd og að ákveðin skilyrði verði sett varðandi það hvað nákvæmlega telst til ritstjórnarkostnaðar. Til þess að uppfylla forsendur styrkveitingar þurfa fjölmiðlar að hafa það að aðalmarkmiði að flytja almenningi á Íslandi fréttir, fréttatengt efni eða umfjöllun um samfélagsleg málefni.
„Við verðum með ákveðin skilyrði um hvað prentmiðlar þurfa að gefa út mörg tölublöð á ári, fjölmiðill þarf að vera skráður hjá fjölmiðlanefnd og má ekki vera í skuld við opinber gjöld og annað slíkt,“ segir ráðherra.
Í fréttatilkynningu sem dreift var á blaðamannafundinum segir að styrkveitingarnar verði fyrirsjáanlegar og myndi ekki hvata „til þess að fara fram hjá kerfinu né skekkja samkeppnisstöðu fjölmiðla“.
Lilja segir að fylgst verði með því hvort fjölmiðlar geri tilraun til þess að að fara framhjá endurgreiðslukerfinu á einhvern hátt, en að hún beri þó traust til fjölmiðlanna og þess að stuðningur yfirvalda verði það mikilvægur fyrir þá að það verði ekki reynt.
Væntur tekjumissir Ríkisútvarpsins, verði því gert að draga saman seglin á auglýsingamarkaði á þann hátt sem Lilja lýsti í kynningu sinni, er 560 milljónir króna. Til skoðunar er að banna kostun dagskrárliða í ríkisfjölmiðlinum og minnka hámarksfjölda auglýsingamínútna á hverjum klukkutíma úr átta niður í sex.
Er blaðamaður spurði hvort minni umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði þýddu að RÚV þyrfti að skera niður, sagði Lilja að það ætti eftir að koma í ljós. Hún segir þó að ríkisstjórnin stefni ekki að því að skerða þjónustu RÚV.
„Við viljum áfram öflugt Ríkisútvarp, við finnum þessum tekjumissi ákveðinn farveg og við eigum eftir að sjá hvernig þetta kemur út hvað það varðar,“ segir Lilja.
Á Íslandi eru ýmis bönn og takmarkanir í gildi um það hvað má auglýsa í fjölmiðlum og hvað ekki, en til dæmis má ekki auglýsa áfenga drykki, tóbak né veðmálastarfsemi.
Innlend fjölmiðlafyrirtæki hafa um árabil talað fyrir því að þessum takmörkunum verði aflétt og sagt að það skjóti skökku við að áfengis- og veðmálaauglýsingar sé víða að finna á erlendum miðlum á borð við Facebook sem íslenskur almenningur notar, á meðan íslenskir fjölmiðlar geti ekki dýft sér í þessa mögulegu tekjulind.
Lilja segir að þessi mál hafi verið tekin til athugunar er málefni fjölmiðla voru skoðuð, en það að rýmka heimildir til þess að birta auglýsingar á borð við þessar hafi „ekki orðið ofan á“.
„Það voru lýðheilsurök sem réðu því,“ segir Lilja, en ráðherra hefur til skoðunar að skattleggja kaup á erlendum netauglýsingum til þess að jafna stöðu innlendra fjölmiðla og erlendra vefmiðla, sem taka til sín ört stækkandi hluta auglýsingamarkaðar.
Blaðamannafundur Lilju í dag var fjölsóttur og nokkuð ljóst að þeir sem þangað voru komnir úr röðum fjölmiðlamanna höfðu mestan áhuga á að heyra um aðgerðir ríkisstjórnarinnar hvað varðaði stuðning við einkarekna miðla, enda hafa þær verið í undirbúningi síðustu misseri.
En Lilja fór yfir fleiri mál á fundinum í dag, sem öll eru liður í því að efla íslenskt mál til framtíðar.
Ráðherra fjallaði nánar um stuðning stjórnvalda við bókaútgáfu, en eins og greint var frá á mbl.is í gær ætlar ríkisstjórnin að endurgreiða bókaútgefendum fjórðung af kostnaði við útgáfu bókar. Árlegur kostnaður vegna þessar eru um 400 milljónir króna frá árinu 2019.
Þá kynnti Lilja að lögð yrði fram þingsályktunartillaga um íslensku í haust, en í henni eru lagðar til aðgerðir í 22 liðum til stuðnings íslenskunnar. Markmið þeirra er meðal annars að efla íslenskukennslu, auka framboð á menningarlegu efni á íslensku og stuðla að vitundarvakningu um mikilvægi og sérstöðu tungumálsins. Meðal aðgerða eru gerð nýrrar málstefnu og viðmiðunarreglur um notkun íslensku í upplýsinga- og kynningarefni.
Lilja fjallaði einnig um þær aðgerðir sem ríkisstjórnin ætlar að grípa til á næstu árum til að tryggja að íslenskan haldi velli í stafrænum heimi. Nú er unnið eftir verkáætlun sem ber heitið Máltækni fyrir íslensku 2018-2022 en í því verkefni felst að þróa og byggja upp tæknilega innviði sem nauðsynlegir eru til þess að brúa bil á milli talmáls og búnaðar, s.s. talgreini, talgervil, þýðingarvél og málrýni eða leiðréttingarforrit. Þessi áætlun er að fullu fjármögnuð í núgildandi fjármálaáætlun ríkisins, en áætlaður heildarkostnaður er 2,2 milljarðar króna.
Þá er nú gert ráð fyrir því að Hús íslenskunnar, áður nefnt Hús íslenskra fræða, rísi loksins og að framkvæmdir við það hefjist í vetur. Þar verða til húsa Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, en húsið rís í hinni svokölluðu „Holu íslenskra fræða“ við Suðurgötu og er áætlað að verkinu ljúki í október árið 2021.