„Það er farið að sjá mikið á þessari leikmynd og í raun er þetta orðið að hálfgerðu leiðindamáli – það eru liðin níu ár og þeir eru ekki enn byrjaðir að taka þessa mynd,“ segir Ómar Antonsson, eigandi jarðarinnar Horns í Hornafirði, í samtali við Morgunblaðið.
Vísar hann í máli sínu til víkingaþorps sem frá árinu 2009 hefur staðið við gamla íbúðarhúsið á Horni. Þorp þetta er leikmynd sem reist var fyrir fyrirhugaða víkingamynd sem Baltasar Kormákur átti að leikstýra. Til stóð að taka upp myndina að stórum hluta hér á landi og áttu tökur að hefjast 2010.
Að sögn Ómars eru tökur hins vegar ekki enn hafnar. „Þeir segja alltaf við mig að hlutir fari að gerast á næsta ári og nú greiða þeir mér ekki einu sinni leigu fyrir þetta lengur,“ segir hann, en að sögn Ómars hefur framleiðandi myndarinnar, 26 Film í Los Angeles í Bandaríkjunum, ekki greitt leigu fyrir afnot af landinu í tvö ár. „Það gengur illa að innheimta hana,“ segir hann.
Þorpið samanstendur af nokkrum húsum og er víkingaskáli þeirra stærstur, 38 metra langur og eru sjö metrar upp í mæni hans. Önnur hús eru t.a.m. hof, hesthús, smiðja, brugghús og þrælageymsla. Þá eru einnig nokkrir minni kofar í þorpinu. Að sögn Ómars er byrjað að brotna upp úr hluta leikmyndarinnar og telur hann slysahættu auðveldlega geta skapast á svæðinu. „Ég er nú eiginlega hræddastur um það.“