Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði í eldhúsdagsumræðum á Alþingi að börn væru að fæðast um þetta leyti sem komu undir um svipað leyti og núverandi ríkisstjórn.
„Lífsins kraftaverk. Það sama er hins vegar ekki hægt að segja um störf ríkisstjórnarinnar. Þar er lítið líf í mönnum, og kraftaverkin fá, ef nokkur,“ sagði Þorgerður Katrín. Hún sagði ríkisstjórnarflokkana, VG, Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk, standa saman um kyrrstöðu og völd.
„Það er að minnsta kosti af sem áður var þegar forystumaður Vinstri grænna stóð hér í pontu fyrir einhverjum árum og lýsti því yfir að Vinstri græn myndu nú aldeilis ekki bregðast hlutverki sínu sem hinn eiginlegi og eini hugmyndafræðilegi og pólitíski höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins á Íslandi,“ sagði Þorgerður Katrín og bætti við að VG virtist hafa gefist upp á því að vera stóra mótvægið við Sjálfstæðisflokkinn.
Hún sagði að þessir fyrrverandi andstæðu pólar væru ekki svo ólíkir þegar allt kæmi til alls. „Því hvar sem borið er niður, þá vilja þau engu breyta. Það kallast íhaldssemi. Jafnvel afturhald. Breytingar hefðu í för með sér raunverulegar kjarabætur og stöðugleika fyrir íslensk heimili, launþega og fyrirtækin í landinu.“
Þorgerður sagði enn fremur að það fælist réttlæti í því að þjóðin fengi sanngjarnt gjald fyrir sameiginlegar auðlindar og að það ætti að afnema úreltar samkeppnishindranir. Einnig væri hægt að lækka kostnað heimilanna, sem hún sagði margfaldan miðað við samanburðarlönd, með breyttri peningastjórn og meiri aga.
„Pólitísk orðræða breytist með nýjum pólitískum ásum því við sjáum einnig að ákveðin afturhalds- og einangrunaröfl með slettu af þjóðernislegu ívafi reyna eins og þau geta að hafa áhrif á umræðuna,“ sagði Þorgerður og bætti við að þeir sem tryðu á frjálst og opið samfélag yrðu að spyrna við fótum.
„Þegar við horfum til Bandaríkjanna þá vonum við að skynsamlega þenkjandi repúblikanar stöðvi vitleysuna í Trump. Það sama gildir hér heima, við vonumst til þess að frjálslynt fólk, sama hvar í flokki það stendur, reyni að sporna við þessari þróun. Segi stopp við Trumpara þessa lands.“
Þorgerður spurði hver yrði afrekaskrá ríkisstjórnar VG en hún sagði flokkinn millistykkið sem tengdi íhaldsþrennuna saman. Hún spurði hvort lækkun veiðigjalda, ekki orð um menntamál, bið öryrkja eftir sjálfsagðri réttarbót og langir biðlistar á heilbrigðisstofnunum yrðu hluti af afrekum VG.
„Þegar allt kemur til alls, er hér starfandi ríkisstjórn sem ekki mun rugga bátnum og á meðan sitja helstu bakhjarlar stjórnarflokkanna brosandi hjá, nokkuð ánægðir með sitt fólk. Því þeirra er uppskeran.“