Forsvarsmenn WOW air eru vongóðir um að geta tryggt félaginu aukið fjármagn til rekstrarins. Þetta herma heimildir Morgunblaðsins. Síðustu vikur hafa þeir í samráði við fjármálafyrirtæki, innlend og erlend, unnið að því að tryggja félaginu að minnsta kosti 50 milljónir dollara með útgáfu skuldabréfa.
Til stóð að niðurstaða væri komin í málið í gær en ekki tókst að ljúka fjármögnunarferlinu innan þess tímaramma. Stjórn WOW air sat langan stjórnarfund í gær en ekki hafa fengist upplýsingar um efni hans. Þá vildi upplýsingafulltrúi félagsins ekki staðfesta að fundurinn hefði farið fram. Ekki náðist í Skúla Mogensen, forstjóra félagsins, né Liv Bergþórsdóttur, stjórnarformann þess, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Heimildir Morgunblaðsins herma að stjórnvöld fylgist grannt með stöðu mála og að fundað hafi verið í vikunni, líkt og um helgina, á þeim vettvangi vegna stöðu félagsins.
Gengi íslensku krónunnar hefur gefið eftir síðustu daga gagnvart helstu viðskiptamyntum. Þannig hefur gengi krónu gagnvart sterlingspundi lækkað um 5,63% á einni viku. Seðlabankinn staðfesti í samskiptum við mbl.is í gærdag að bankinn hefði gripið inn í á gjaldeyrismarkaði í gær vegna lækkunar krónunnar.
Greiningaraðilar segja í samtali við Morgunblaðið og mbl.is að líklega megi rekja þá þróun til ótta markaðarins við að ferðamönnum muni fækka á komandi mánuðum. Þar spili ekki síst inn í óljósar fréttir af stöðu WOW air. Áhrifanna gætti einnig á hlutabréfamarkaði í gær. Þannig hækkaði gengi Icelandair Group um ríflega 9,7% í 513 milljóna króna viðskiptum. Öll önnur félög í Kauphöllinni, að HB Granda undanskildum, lækkuðu og sum þeirra verulega. Mest lækkuðu olíufélögin Skeljungur um 3% og N1 um 5,7%. Þá lækkuðu fasteignafélögin Reginn um 4%, Reitir um 1,8% og Eik um 4,8%.