Stjórn Öryrkjabandalags Íslands samþykkti samhljóða á stjórnarfundi í gær að fela lögmanni sínum að hefja innheimtuaðgerðir gegn Tryggingastofnun ríkisins/íslenska ríkinu, vegna bótaflokksins sérstök framfærsluuppbót.
Í þessu felst að lögmanni ÖBÍ er heimilt að beita þeim innheimtuaðgerðum sem nauðsynlegar eru til árangurs, þ.m.t. að höfða mál fyrir dómstólum ef þörf krefur.
Áður hafði Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, greint frá því að ÖBÍ útilokaði ekki dómsmál vegna „krónu á móti krónu“ skerðingar.
„Afnám skerðingarinnar gerir fólki kleift, og veitir því hvata til að vinna. Það er stórundarlegt að þetta hafi ekki verið afnumið,“ sagði Þuríður Harpa í byrjun september. Einnig benti Þuríður á að sams konar skerðing hefði verið afnumin hjá eldri borgurum fyrir nokkru. Hins vegar hefðu örorkulífeyrisþegar verið skildir eftir.
„Í þessu er fólgin mismunun. Frá 1. janúar 2017 hafa örorkulífeyrisþegar orðið af umtalsverðum fjármunum þegar litið er til sambærilegra hópa. Hjá mörgum þeirra getur skerðingin numið um 60.000 krónum á mánuði eða meira,“ kemur fram í tilkynningu frá ÖBÍ.
Enn fremur er talið að ríkissjóður taki með þessum hætti tæplega fjóra milljarða króna á ári úr vösum öryrkja.
Stjórn Öryrkjabandalags Íslands skorar á Alþingi að bregðast strax við og setja sérstaka framfærsluuppbót inn í bótaflokkinn tekjutryggingu og leiðrétta þá mismunun sem örorkulífeyrisþegar hafa orðið fyrir frá 1. janúar 2017.