Mikilvægt að skilja við fortíð málsins

Ragnar sagði ekkert að marka játningar Guðjóns Skarphéðinssonar, enda væru …
Ragnar sagði ekkert að marka játningar Guðjóns Skarphéðinssonar, enda væru þær metnar falskar samkvæmt sálfræðimati. mbl.is/Hari

„Það er afar mikilvægt að í þessum dómi verði skilið við fortíð þessa máls, tekið verði á mistökum og þau viðurkennd,“ sagði Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar, í málflutningi sínum við endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálsins í Hæstarétti í dag.

Guðjón hlaut tíu ára dóm í Hæstarétti árið 1980 fyrir að hafa banað Geirfinni Einarssyni í nóvember árið 1974, ásamt Sævari Cieselski og Kristjáni Viðari Viðarssyni sem einnig hlutu þunga dóma í málinu.

Ragnar sagði dómsmorð hafa verið framið á dómfelldu í málinu á sínum tíma. Ef dómurinn tæki á málinu nú myndi það hafa áhrif á réttlæti fyrir dómstólum í landinu og auka virðingu. En sú sérstaka staða er uppi í málinu að bæði ákæruvaldið og verjendur krefjast sýknu. Það er hins vegar alltaf á valdi Hæstaréttar hvort sýknukrafan verði tekin til greina eða ekki.

Samkvæmt sálfræðimati er játning Guðjóns í málinu talin vera fölsk. Ragnar sagði sök hafa verið fellda á skjólstæðing sinn eingöngu með framburði og játningum annarra, sem aflað hefði verið með ólöglegum hætti. Ekki hefðu nein sönnunargögn verið til staðar í málinu.

Rannsakendur sögðu dómfelldu strax seka

Sagðist Ragnar telja að rannsóknin hefði byggst á því að leiða áfram frá frásagnir sem lögreglan bjó til. Ekkert hefði bent til þess að skjólstæðingur hans eða aðrir dómfelldu í málinu hefðu verið í Keflavík þegar Geirfinnur á að hafa horfið þaðan. Þvert á móti hefðu  verið sterkar vísbendingar um annað. Sagði Ragnar þetta skýra hve langan tíma tók að reka málið. Eina leiðin hefði verið að þvinga fram játningar ólöglegan hátt. Þá hefði verjendum verið meinað að sækja dómþing annarra en skjólstæðinga sinna í málinu og því hefði ekki komið fram raunhæf vörn.

Þá benti Ragnar á að í ákæru hefði hlutur hvers og eins í málinu ekki verið skilgreindur og það hefði því verið óljóst í huga ákæruvaldsins hvenær atburðirnir áttu sér stað.

„Saklaus er hver maður uns sekt hans er sönnuð,“ benti Ragnar á en sagði þá reglu hafa verið brotna frá fyrsta degi við rannsókn málsins. Allir þeir sem komu að rannsókninni hefðu talið dómfelldu seka og beinlínis fullyrt það. Ákæruvaldinu hefði þó aldrei tekist að sanna sekt þeirra. Atburðir hefðu hins vegar verið tengdir saman með ágiskunum og öll atvik skýrð ákæruvaldinu í hag.

Allt fram yfir 15 daga einangrun er stórhættulegt

Ragnar sagði það hafið yfir allan skynsamlegan vafa að Guðjón hefði gefið falska játningu í málinu. Dagbækur Guðjóns, sem hann hélt í gæsluvarðhaldinu, eru meðal gagna í málinu en þar skrifaði hann um meðferðina sem hann mátti þola og óhóflega lyfjagjöf þar sem fangaverðir skömmtuðu lyfin en ekki læknar. Ragnar sagðist telja að Guðjón hefði í raun ekki játað neitt þó að Hæstiréttur hefði gengið út frá því á sínum tíma.

Hann sagði langvarandi gæsluvarðhald og einangrun vera pyntingu í sjálfu sér. Allt fram yfir 15 daga einangrun væri stórhættulegt, hvað þá 90 eða 100 daga. Dæmi væru um að menn játuðu á sig glæpi sem þeir hefðu ekki framið eftir aðeins nokkrar klukkustundir í einangrun.

Hann benti á að verjandi skjólstæðings síns hefði ekki alltaf fengið að vera viðstaddur yfirheyrslur og að spurningar hefðu ekki verið bókaðar.

Ragnar sagði að þar sem játning Guðjóns væri fölsk væri ekkert að marka hana. Hann færi því ekki eingöngu fram á að skjólstæðingur hans yrði sýknaður heldur að hann væri saklaus. Það yrði að horfast í augu við það þrátt fyrir að sami dómstóll hefði dæmt hann á sínum tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert