Brjóstnámsaðgerð sem Bjarnþóra María Pálsdóttir hyggst fara í hjá íslenskum brjóstaskurðlækni sem er með stofu á Íslandi verður ekki niðurgreidd af ríkinu nema hún sé framkvæmd erlendis. Ástæða þess er að rammasamningar sérgreinalækna renna út um áramótin.
Bjarnþóra María greindist nýlega með stökkbreytingu í svokölluðu BRCA2-geni sem eykur líkur á brjóstakrabbameini um 50-70% og hyggst gangast undir fyrirbyggjandi aðgerð.
„Sami læknir má framkvæma aðgerðina á Englandi og ríkið niðurgreiðir hana. En hann má ekki framkvæma hana á Íslandi. Það er út úr kortinu,“ segir Bjarnþóra. Þá stendur Bjarnþóra straum af ferðakostnaði og þarf hún einnig að útvega sér aðstoð eftir aðgerðina, þar sem umfang hennar er það mikið að nauðsynlegt er að fá aðstoð dagana eftir að hún er gerð.
„Maður er ósjálfbjarga fyrstu dagana eftir aðgerðina. Tilhugsunin að vera með dren í báðum brjóstum og fara síðan í flug, gista á hótelum – hún er ömurleg. Það er miklu meira lagt á mann og þetta er mun dýrara,“ segir Bjarnþóra í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.