Einstakar aðstæður að þurfa að fara yfir óbrúaða á í Reykjavík

Sveinn hefur oft þurft að vaða yfir ána Þverá á …
Sveinn hefur oft þurft að vaða yfir ána Þverá á veturna. Ljósmynd/Aðsend

Tekin hefur verið ákvörðun um það hjá umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar að hefja viðræður við Vegagerðina um gerð vegar við bæinn Þverárkot við Esjurætur í póstnúmeri 116 Reykjavík, en eigandi jarðarinnar hefur árum saman þurft að fara yfir óbrúaða á til að komast heim og að heiman. Óvenjulegar aðstæður kalli á að borgin komi að málinu.

„Eftir að hafa farið yfir málið hér á umhverfis- og skipulagssviði hefur verið tekin ákvörðun um að taka upp viðræður við Vegagerðina um hvernig hægt sé að standa sameiginlega að þessari framkvæmd. Málið verður svo tekið upp í tengslum við fjárhagsáætlunarvinnu fyrir næsta ár,“ segir Ámundi V. Brynjólfsson, skrifstofustjóri framkvæmda og viðhalds hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur, um gerð vegar við bæinn Þverárkot.“

Fjallað var um aðstæður Sveins Sigurjónssonar, eiganda og eina íbúans í Þverárkoti, í Sunnudagsblaðinu í júlí síðastliðnum og brot af þeirri umfjöllun birt á mbl.is.

Þá lýstu Sveinn og Kolbrún Anna, dóttir hans, þeim aðstæðum sem Sveinn býr við í Þverárkoti en engin brú eða vegur liggur yfir ána Þverá en yfir hana þarf að fara til að komast að bænum. Ekki er því fært að bænum, sem þó tilheyrir Reykjavík, nema á stórum jeppum. Á veturna er ekki rutt að árvaðinu og ekki hægt að komast á bíl yfir ána sem oft er í klakaböndum. Sveinn, sem er að verða áttræður, hefur því í nokkrar vikur á hverjum vetri þurft að vaða yfir ána. Telja verður líklegt að hann sé eini borgarbúinn sem þarf að fara yfir óbrúaða á til að komast að heimili sínu.

Sveinn Sigurjónsson og Kolbrún Anna Sveinsdóttir við bæinn Þverárkot undir …
Sveinn Sigurjónsson og Kolbrún Anna Sveinsdóttir við bæinn Þverárkot undir Esjurótum. mbl.is/RAX


Engin fordæmi

Nú gæti hins vegar horft til betri vegar en borgin hefur ákveðið að taka upp samtal við Vegagerðina um að koma að vegagerð við bæinn. Viðræður borgarinnar og Vegagerðarinnar um málið munu hefjast nú á haustmánuðum og miðað er við að ná samkomulagi um skiptingu kostnaðar áður en vinnu við fjárhagsáætlun borgarinnar lýkur, sem er jafnan í desember.

„Við ætlum allavega að taka samtalið og sjá hvernig það gengur. Þetta eru afar óvenjulegar og í raun einstakar aðstæður sem þarna eru uppi, að íbúi í Reykjavík þurfi að fara yfir óbrúaða á til að komast heim til sín. Það er í ljósi þessara sérstöku aðstæðna sem við tökum málið upp. Það á sér engin fordæmi og því er ólíklegt að niðurstaðan verði fordæmisgefandi fyrir aðrar framkvæmdir,“ segir Ámundi.

Sveinn í Þverárkoti býr við hættulegar aðstæður en áin sem …
Sveinn í Þverárkoti býr við hættulegar aðstæður en áin sem hann þarf að fara yfir til að komast heim er oft ísilögð og ísinn er þunnur. Ljósmynd/Aðsend

Líkt og fram kom í umfjöllun Sunnudagsblaðsins í sumar hefur Vegagerðin þegar unnið framkvæmdaáætlun fyrir verkið. Setja þurfi ræsi í ána og leggja veg yfir en áætlað er að það kosti á bilinu 12-14 milljónir.

Þar sem um er að ræða veg að lögbýli þarf eigandi að greiða helming þeirrar fjárhæðar úr eigin vasa en Vegagerðinni ber að greiða helming. En vegna hinna sérstöku aðstæðna hyggst borgin nú ræða við Vegagerðina um aðkomu að framkvæmdinni.

Jónas Snæbjörnsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar, segir það auðsótt mál að ganga til samtals við borgina um þátttöku í þeim hluta sem snýr að eiganda jarðarinnar. „Við tökum vel í það ef Reykjavíkurborg vill koma að því að greiða þann hluta kostnaðar sem félli annars á eiganda. Nú bara ræðum við saman og vonandi næst samkomulag um þetta og við getum þá gert sameiginlega áætlun um verkið.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert